Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 17:08:06 (2365)

1999-12-06 17:08:06# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[17:08]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi spurningar hv. þm. um bankastarfsemina: Nei, ég vildi bara að menn töluðu hreint út. Ef þeir vilja ríkisbanka eins og ég og flokkur minn viljum gjarnan halda í þá eiga menn að sýna lit og samþykkja það.

Ég tók mér ekki þau orð í munn að Byggðastofnun væri úrelt fyrirbrigði. Ég sagði bara að ég teldi að flest værum við sammála um að við hefðum ekki náð þeim árangri sem við sækjumst eftir í þróun byggðamála. Ég held að hverjum manni hér ætti að vera ljóst hve vandinn er gríðarlegur. Þá er að horfa ískalt á málin og velta því upp hvort ekki eigi að fara aðrar, nýjar og betri leiðir. Það er bara staðreynd sem ég vil horfast í augu við. Ég hef fengið þær upplýsingar, eins og ég sagði í framsöguræðu minni, að þessi endurlán Byggðastofnunar væru ekki hagstæðustu lán sem hægt er að fá. Að því leyti er ég samþykkur því. Ef um atvinnuuppbyggingu er að ræða úti á landi þá á að reyna að fá sem hagstæðust lán með þeirri aðstoð, sérfræðiþekkingu og hjálp sem nauðsynleg er þeim sem ætla að stofna fyrirtæki. Að að því leyti erum við ekki ósammála. Ég er aðallega að koma því á framfæri að þessi aðferð gagnast ekki stjórnkerfinu. Við eigum þess vegna að fara aðrar leiðir. Allir eru sammála um að upplýsingaleiðin, þ.e. þróunarvinnan sé góð aðferð og það sem þar hefur verið sett í gang. Hún er tiltölulega nýtilkomin og ekki margra ára gömul.