Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 17:35:25 (2371)

1999-12-06 17:35:25# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[17:35]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm., nafni minn Guðjón Guðmundsson, hafi ekki tekið eftir því sem ég sagði. Ég sagði eitthvað á þá leið að ég sæi ekkert í núverandi lögum sem kæmi í veg fyrir að stjórn Byggðastofnunar gæti tekið upp samstarf þar sem hún vildi því við koma. Ég hverf hins vegar ekki frá þeirri skoðun minni að ég tel að málaflokkurinn sé betur kominn hjá forsrn. og einnig að stjórn stofnunarinnar eigi að vera skipuð af Alþingi.

Mig langar hins vegar að víkja aðeins að þeim lausnum sem vikið er að í skýrslu Byggðastofnunar. Ég vék að því áðan að sveitarfélög hefðu litla fjármuni, væru í erfiðri stöðu til þess að fara í samkeppni um kvótann með því verðlagi sem er á honum í dag. Ég held að það sé þannig og kannski rétt að benda á nokkrar staðreyndir.

Vísitala kvótans, hver skyldi hún hafa verið á því tímabili sem miðað er við í skýrslu Byggðastofnunar? Jú, leiga á þorskkvóta var á tíu krónur í lok ársins 1987 en er núna í 110 kr. Á svipuðu tímabili hefur kaupmáttur launa hækkað um 14,8% nema hjá bændum þar sem hann hefur dregist saman um 20%.

Það verður að segjast að kvótakerfið sem við búum við er gjörsamlega óþolandi. Það er undarlegt að stofnun sem sér vandann og kortleggur skuli koma með tillögur í þá veru að auka kvótakaup.