Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 17:57:18 (2377)

1999-12-06 17:57:18# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, SighB
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[17:57]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Frv. sem við ræðum nú er lagt fram á Alþingi svona hálfmunaðarlaust. Hæstv. forsrh. er í hlutverki hins góða nágranna sem fer með barnið fyrsta skóladaginn í skólann. Hann á ekkert í því. Hann þekkir afskaplega lítið til þess en verður samt sem áður að standa í forsvari gagnvart okkur hinum og svara fyrir slíkt afkvæmi. Og hv. þm. Guðjón Guðmundsson er eins konar skírnarvottur að þessu, þ.e. hann er einn af þeim sem komu nálægt því að ausa afkvæmið vatni og mætir hér sem eins konar skírnarvottur til þess að svara fyrir þetta munaðarlausa afkvæmi. En þeir sem bera ábyrgð á málinu eru víðs fjarri.

Hvar er hæstv. iðnrh. sem bar ábyrgðina á og lét semja frv.? Hvar er hann staddur? Alþingismenn geta engum spurningum til hans beint, mannsins sem samdi frv. og á að taka við framkvæmd þess.

Og það voru fleiri en einn skírnarvottur sem komu að málinu. Formaður þingflokks Framsfl. er skírnarvottur nákvæmlega eins og hv. þm. Guðjón Guðmundsson. Hvar hefur hann verið allar þessar umræður? Það er eins og Framsfl. sé ekki til, flokkurinn sem ber ábyrgð á þessu máli. En við verðum að sjálfsögðu að láta okkur nægja að beina spurningum til þeirra sem eru forráðamenn málsins formlega hér á Alþingi þó svo að þeir séu ekki feður eða mæður þessa munaðarlausa afkvæmis.

Ég vil nota tækifærið til að spyrja hæstv. forsrh. hvaða rök séu fyrir því að færa þennan málaflokk, Byggðastofnun og þau mál sem hún sinnir, undan forræði hæstv. forsrh. sem er í senn efnahagsmálaráðherra ríkisstjórnarinnar og samræmingarráðherra, yfir til fagráðherra. Hvernig getur það, eins og hv. þm. Guðjón Guðmundsson sagði áðan, styrkt stöðu Byggðastofnunar að gera þá breytingu? Hvaða rök eru fyrir því að fela hæstv. iðnrh., einum af þremur fagráðherrum í hæstv. ríkisstjórn, að skipa alla 14 stjórnarmenn stofnunarinnar í staðinn fyrir að þeir séu mynd af hinu þverpólitíska ástandi í landinu, kosnir af Alþingi, eins og verið hefur? Hvernig getur það styrkt stofnunina að 14 framsóknarmenn setjist þar til valda? Er hún sterkari stofnun eftir en áður?

[18:00]

Hvers vegna er gert ráð fyrir að valdið til að semja byggðaþróunaráætlanir sé tekið af Byggðastofnun? Það er eitt af því merkilegasta sem hún hefur sinnt, þær áætlanir sem hún hefur gert í byggðamálum. Í gildandi lögum hefur ekki einu sinni forsrh. það verk með höndum að vinna byggðaþróunaráætlanir heldur Byggðastofnun. Hvernig getur það styrkt Byggðastofnun að taka þetta af henni og fela það í hendur iðnrh.? Að ráðherrann eigi að gera byggðaþróunaráætlanir í samvinnu m.a. við ýmis önnur ráðuneyti og Byggðastofnun, hvernig getur það styrkt stöðu Byggðastofnunar?

Hvernig getur það styrkt stöðu Byggðastofnunar, herra forseti, að taka ákvörðun um að fella niður öll ákvæði úr gildandi lögum sem gera ráð fyrir að Byggðastofnun geti brugðist við og gripið til sértækra aðgerða vegna vanda í byggðamálum og fella út alla möguleika hennar á föstum tekjustofnum til ráðstöfunar?

Í ákvæðunum um starfsemi hinnar nýju Byggðastofnunar sem á að setja á fót samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir að tekjuöflunarleiðir Byggðastofnunar séu aðeins tvær, í fyrsta lagi fjármagnstekjur og í öðru lagi framlög á fjárlögum Alþingis hverju sinni. Fjármagnstekjur Byggðastofnunar eru 250 millj. kr. á ári ef ég man rétt. Þar af þarf hún að leggja u.þ.b. 150 milljónir í afskriftasjóð. Síðan þarf hún að leggja til hliðar vegna eftirlaunaskuldbindinga starfsmanna, þá þarf hún að greiða af þessum tekjustofni rekstur og því er nánast ekkert eftir af hinum eina fasta tekjustofni Byggðastofnunar þegar tekið hefur verið tillit til þessa. Þá hefur hún ekki úr neinum fjármunum að spila nema því sem Alþingi leggur Byggðastofnun til hverju sinni, sem hafa verið eitthver hundruð milljóna.

Eins og sakir standa gæti ég trúað því að óhafin lánsloforð sem Byggðastofnun hefur gefið út séu í kringum 500 millj. kr. og jafnvel meira. Með öðrum orðum er Byggðastofnun sennilega tveimur árum á eftir með að borga út lánsloforð miðað við þær tekjur sem hún hefur til ráðstöfunar. Hvernig getur það styrkt stöðu Byggðastofnunar að ganga þannig frá málum að hún sé svipt föstum tekjustofni sínum? Það skil ég ekki.

Ég ætla nú ekki að leggja allar þessar spurningar fyrir hæstv. forsrh. Það er ekki hans að svara fyrir þessi mál. Það eina sem hann þarf að leggja fram eru rökin fyrir því hvers vegna talið var rétt að flytja Byggðastofnun úr umsjá forsrh. yfir í umsjá iðnrh. Hver eru rökin fyrir því önnur en rök helmingaskiptanna, hnífakaupanna, þau rök að hæstv. forsrh. þurfi að borga Framsfl. eitthvað fyrir það að fá til sín Seðlabanka, þó að forsrh. sé efnahagsráðherra hverrar ríkisstjórnar? Vilji fá að borga fyrir það, hníf í stað hnífs. Hann hefur lítið til þess að borga með annað en Byggðastofnun.

Ég vil nota þetta tækifæri af því að hæstv. forsrh. féllst á að fresta þessari umræðu þangað til að hægt væri að taka til skoðunar skýrslu Byggðastofnunar um aðgerðir í byggðamálum, Byggðir á Íslandi. Ég vek athygli hæstv. ráðherra á því að þar er á bls. 6 tekið fram að til þess að bregðast við vanda landsbyggðarinnar þurfi að grípa til sérstakra aðgerða á ákveðnum svæðum. Bent er á að ekkert sé að finna í íslenskum lögum eða alþjóðasamningum sem hindri sértækar aðgerðir á þessum svæðum. Nú spyr ég: Hvað í núverandi lögum gerir Byggðastofnun fært að grípa til þessara sérstöku aðgerða sem hún sjálf hvetur til á þeim atvinnuþróunarsvæðum sem verst eru stödd? Hvað í fjármögnun Byggðastofnunar gerir henni fært að grípa þannig til ráðstafana?

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að gripið verði til tiltekinna aðgerða í þeim málaflokkum sem varða landsbyggðina mestu, þ.e. sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum. T.d. er lagt til að hefja markaðsátak í landbúnaðarmálum og að varið verði til verkefnisins 200 millj. kr. Ég spyr: Hvernig er Byggðastofnun fær um að láta út slíka fjármuni miðað við þá fjáröflunarkosti sem stofnunin hefur í lögum? Ég spyr hæstv. forsrh., sem er ráðherra byggðamála enn sem komið er hvort hann styður þessa aðgerð.

Gert er ráð fyrir því að Byggðastofnun fái sérstaka fjárveitingu upp á 50 millj. kr. til að vinna að sértækum svæðisbundnum aðgerðum á jaðarsvæðum þar sem hefðbundinn landbúnaður er stundaður. Ég spyr hæstv. forsrh., af því að hann er ráðherra byggðamála enn sem komið er: Tekur hann undir þessa tillögu? Hvernig ætlar hann að sjá til þess, ef honum finnst tillagan jákvæð, að Byggðastofnun fái fjármuni til að geta gert þetta? Hún hefur ekki þessa fjármuni eins og frá málinu er gengið í frv. sem nú er fyrir okkur lagt. Hvernig hyggst hæstv. forsrh. stuðla að því að gera Byggðastofnun fært að hrinda þessu áætlunarverkefni í framkvæmd?

Á bls. 14 í þessari sömu skýrslu eru lagðar til aðgerðir til eflingar sjávarbyggðum. Byggðastofnun kemst að þeirri niðurstöðu að þær séu nú í mestri hættu allra byggðra bóla á Íslandi, sjávarbyggðir með 200--1.000 íbúa. Þar er lagt til að heimila forkaupsrétt sveitarfélaga á skipum sem selja á í viðkomandi byggðarlagi og tillaga um byggðakvóta. Þar er lagt til að fiskvinnslur fái rétt til eignarheimilda á kvóta sem þýðir breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Þar er lögð til aðstoð við smáfyrirtæki í sjávarútvegi á jaðarsvæðum o.fl. Margar þessar tillögur kalla á breytingar á öðrum lögum, m.a. breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Ég hlýt að spyrja hæstv. forsrh. um afstöðu til þessara tillagna.

Styður hæstv. ráðherra að gerðar séu þær breytingar sem þarna eru lagðar til, m.a. á lögum um stjórn fiskveiða, til að bjarga sjávarbyggðunum, byggðunum með 200--1.000 íbúa, sem Byggðastofnun telur nú í mestri hættu á að leggjast í auðn?