Ósk um viðræður við fulltrúa Norsk Hydro

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 13:47:18 (2413)

1999-12-07 13:47:18# 125. lþ. 37.91 fundur 192#B ósk um viðræður við fulltrúa Norsk Hydro# (aths. um störf þingsins), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[13:47]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég greiddi atkvæði gegn því í iðnn. í morgun að kalla fulltrúa Norsk Hydro frá Noregi til viðtals við nefndina. Mér fannst nefndin ekkert eiga vantalað við þann fulltrúa. Ég lít þannig á að þingmálið snúi að því hvort Alþingi ætlar að standa við fyrri samþykktir eða ekki. Alþingi samþykkti lög um Fljótsdalsvirkjun. Í framhaldi af því var Landsvirkjun veitt virkjanaleyfi. Landsvirkjun greiddi þá 1,5 milljarða til ríkissjóðs fyrir þær rannsóknir sem fram höfðu farið, hóf framkvæmdir við virkjunina, það má ekki gleymast, og hefur varið öðrum 1,5 milljörðum í framkvæmdir og frekari undirbúning.

Í lögum um umhverfismat sem sett voru árið 1993 er þessi framkvæmd undanþegin vegna þess að framkvæmdir voru hafnar áður. Það er skýrt, þannig að Alþingi getur ekki komið í dag og sagt: Þetta er allt í plati.

Það þarf líka að koma fram, af því að verið er að tala um Norsk Hydro, að hjá viðmælendum iðnn. hefur komið fram að fleiri hafa áhuga á að komast að í viðskiptum við þessa virkjun en Norsk Hydro. Nefnt hefur verið Columbia Ventures sem rekur Norðurál á Grundartanga. Fleiri hafa verið nefndir og mér hefur skilist á viðmælendum nefndarinnar að biðröð sé eftir að komast að. Það er náttúrlega augljóst að Landsvirkjun mun ekki hefja þessar framkvæmdir nema kaupandi finnist að orkunni. Ég tel að Alþingi eigi að standa við fyrri samþykktir sínar og sé enga ástæðu til að kalla til fulltrúa Norsk Hydro, hversu mikið sem menn lesa upp úr Morgunblaðinu.