Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 15:34:28 (2433)

1999-12-07 15:34:28# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[15:34]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Vinna fjárln. við þetta ákveðna mál sem hv. þm. tiltekur fólst í að ræða úttekt Ríkisendurskoðunar á fjárþörf þessa spítala. Ég rakti það í ræðu minni að hún væri tilkomin vegna launahækkana og að 3/4 vegna hækkana á rekstrarkostnaði af því sem út af stóð. Það er alveg rétt að sú framvinda sem verið hefur hjá þessari stofnun og öðrum og samskipti þeirra við fjárveitingavaldið --- við þurfum að fá betri viðmiðanir og betri áætlanir í upphafi árs um fjárþörf þeirra og að því höfum við einsett okkur að vinna. Við höfum einsett okkur að stuðla að því að gert verði reiknilíkan fyrir þessar stofnanir þannig að ljóst sé hvaða þjónustu er verið að veita, hvað sú þjónusta kostar og að fjárveitingar séu byggðar á því og áætlunum sem þær stofnanir gera í upphafi árs. Við erum með þeim viðbótarframlögum sem lögð eru fram að reyna að ná utan um þennan vanda, því að það er alveg ljóst að við erum þarna í vanda sem við þurfum að ná utan um.