Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 16:54:21 (2449)

1999-12-07 16:54:21# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, EOK
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[16:54]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Hér liggja fyrir tvö nál., meiri hluta og minni hluta fjárln., um þetta frv. til fjáraukalaga. Meiri hlutinn leggur til verulegar breytingar og mikla hækkun á þessum fjáraukalögum og það er sannarlega rétt að það er mjög alvarlegur hlutur. Það er mjög alvarlegur hlutur þegar þannig stendur á að við þurfum að leggja til svo mikla hækkun sem raun ber vitni. Við skulum þess vegna umgangast þetta og ræða þetta af mikilli alvöru. Það er alveg rétt, sumt af því sem fram hefur komið hjá stjórnarandstöðunni, að okkur ber að stefna að því að Alþingi komi ekki að gerðum hlutum svo framarlega sem þess er nokkur kostur. Við verðum því að vanda fjárlagagerðina hverju sinni, gera mikla kröfu til framkvæmdarinnar og reyna af fremsta megni að standa ekki frammi fyrir svo háum fjárhæðum eins og raun ber vitni núna á þessu hausti.

Við höfum rætt þennan vanda töluvert áður, bæði við 1. umr. fjárlaga, svo og 1. umr. fjáraukalaga og um þá miklu kostnaðaraukningu sem hefur orðið í hinum opinbera geira og sérstaklega í heilbrigðiskerfinu. Ég held að það sé þó rétt, herra forseti, að fara enn einu sinni yfir það hvað um er að ræða og hver þessi vandi er vegna þess að við verðum að reyna að taka á honum. Við verðum að reyna að koma okkur út úr því vandamáli að kostnaðurinn vaxi svo gríðarlega eins og hann hefur gert á þessu ári.

Ég fór yfir það við 1. umr. um fjáraukalagafrv. að auðsætt væri að skýringanna væri að leita í nýju launakerfi ríkisins sem tók gildi 1997. Ég fór þá yfir hvað það væri í því launakerfi sem ég hefði miklar efasemdir um og hvers vegna það væri sem ég teldi að það hefði farið svo mjög úr böndunum eins og raun ber vitni.

Í umræðum í dag hefur komið fram að menn vilja meina að aðferðafræðinni, sem menn höfðu við að koma þessu nýja launakerfi til forstöðumanna ríkisstofnananna, hafi verið töluvert ábótavant og reyndar hefur það margsinnis komið fram í störfum okkar í fjárln. á þessu hausti. Ég tel það þó ekki aðalatriði málsins. Ef það væri bara þannig að við værum í vandræðum gagnvart aðferðafræðinni, þ.e. að koma þessu til skila, værum við í miklu auðveldari málum, því þá gætum við kippt því í liðinn. Ég held að þetta sé því miður enn þá alvarlegra en það. Ég held að það sé ekki eingöngu aðferðafræðin sem þarna er að heldur sjálf hugmyndafræðin.

Ég ætla að fara í þriðja skipti í haust yfir þessi mál því að ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að átta sig á þessu, það sé grunnþátturinn í því ef okkur á að geta tekist betur. Það er ekki nema eðlilegt í markaðssamfélagi eins og okkar þar sem við erum farin að láta markaðinn ráða miklu meira en áður, hverfa frá handstýringu í efnahagsmálum, að almennir samningar á launamarkaði verði meira og meira fyrirtækjatengdir. Allt í lagi með það, allt gott um það. Viðleitni ríkisvaldsins 1997 til þess að breyta þessu líka hjá hinu opinbera er líka vel hugsuð. Það er allt í lagi með þá hugmyndafræði svo framarlega sem forsendur hennar eru til staðar. Á markaðnum er það hinn ískaldi veruleiki samkeppninnar og hinn harði agi hluthafanna sem tryggja að við getum farið út í markaðs- og fyrirtækjasamninga. Ef við hefðum sams konar ramma og sams konar aga hjá ríkisvaldinu væri það líka hægt. Þá gengi það alveg eins upp hjá ríkinu eins og hinum frjálsa markaði. En það er ekki svo. Það vantar þessar forsendur. Það er ekki sá agi í ríkisfjármálunum sem er forsenda þess að slíkir samningar geti gengið. Reynslan sýnir okkar það. Fyrirtækin þola ekki álagið. Við höfum þetta fyrir framan okkur.

[17:00]

Þess vegna segi ég, herra forseti, og það er mín persónulega skoðun --- ég veit ekki hver afstaða ríkisstjórnarinnar verður --- að núna eigum við aðeins tveggja kosta völ og það er ekkert þar á milli. Annaðhvort tekst okkur að koma hlutunum þannig fyrir að fjárlögin séu virt af öllum þannig að enginn komist upp með að virða þau ekki og komast fram hjá þeim. Við eigum þennan kost eða hinn sem margir líta á sem mjög slæman líka, þ.e. að hverfa aftur til mjög miðstýrðra samninga á vegum hins opinbera. Ef við náum ekki þeim árangri að aga okkur að fjármálunum, þá verðum við að snúa aftur til miðstýringar. Ég veit að mönnum þykir kannski hvorugur þessi kostur góður en þetta er það sem við verðum að gera. Við getum ekki, megum ekki og aðrir munu ekki leyfa okkur það, launþegar og aðilar vinnumarkaðarins, að það sé öðruvísi. Mönnum mun ekki leyfast það. Ég vil því meina, herra forseti, að það beri að taka textann í nál. meiri hluta fjárln. mjög alvarlega og ég vil undirstrika orð formanns fjárln. um ábyrgð stjórnenda og að við skulum virða í hvívetna fjárreiðulögin því ef við virðum þau ekki þá erum við í svo slæmum málum --- ég veit að það er alveg samstaða í þinginu, að ekki er munur á afstöðu manna hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu --- að við erum að vinna okkur gríðarlegt ógagn og koma í veg fyrir þá farsæld sem þetta þjóðfélag gæti átt kost á ella.

Ég held einmitt að um það sé heilmikil samstaða, herra forseti, í fjárln. milli stjórnarsinna og stjórnarandstöðunnar um að menn verða að vanda sig verulega og það verði að standa þannig að þessum hlutum að við getum treyst fjárlögunumm.

Ég bið menn samt að gæta sín töluvert í þessari umræðu. Við getum ekki afgreitt þetta eins og hv. þm. Jón Bjarnason gerði áðan þegar hann spurði á þá leið að úr því að við ætlum að borga sjúkrahúsunum, af hverju við leyfum þá ekki Vegagerðinni að keyra fram úr um 1 milljarð o.s.frv. Það er náttúrlega fjarstæða að bera þetta saman. Rekstur heilbrigðiskerfanna er almennt vandamál í allri Vestur-Evrópu. Sumum ríkjum Vestur-Evrópu hefur tekist betur en öðrum að hemja útgjöldin og halda utan um þau og allar þjóðir eru að reyna það með ýmsu móti.

Þessi stjórn, ríkisstjórn Íslands, verður oft fyrir miklu aðkasti í þingsalnum einmitt frá stjórnarandstöðunni fyrir það að ekki sé nógu vel gert í þessu máli eða hinu, að við þurfum að auka, efla, bæta, stækka og hækka allt sem að heilbrigðismálum lýtur. Sannleikurinn er sá að það er staðið mjög vel að heilbrigðismálum á Íslandi þó að maður heyri oft öðru haldið fram í þessum sal. Við erum að eyða verulega miklum fjármunum til heilbrigðismála. Við höfum verið að nota til þeirra hluta um 6,7% af vergri landsframleiðslu á undanförnum árum og allt bendir til þess að á þessu ári verði það ekki lægra hlutfall þrátt fyrir gríðarlegan hagvöxt, sem sýnir að við erum að auka verulega fjármunina í heilbrigðismálum. Það að geta ekki ráðið við þetta og geta ekki stjórnað þessum fjármunum er vandamál sem við verðum að horfast í augu við því við getum ekki látið þetta ganga svona áfram.

Ég vil rifja það upp hvernig staðið var að fjárlögum fyrir ári síðan, fyrir 1999. Grundvöllur fjárlaga 1999 var tillögur sérstaks faghóps á vegum heilbrrn. og þó svo einhver kunni nú að koma og segja: ,,Það var vitlaust gefið. Þetta hefði ekki átt að vera svona heldur hinsegin``, þá liggur líka fyrir, herra forseti, að engin efnisleg gagnrýni var á störf þessarar nefndar, engin. Í fyrrahaust um þetta leyti bar enginn fram hlutlæga gagnrýni á störf þessarar nefndar og það hefur enginn borið hana fram enn. Við sem stóðum að þessu, þ.e. Alþingi fyrir einu ári síðan var því sannarlega að vanda sig, var sannarlega að reyna að gera það besta þó að við stöndum núna frammi fyrir því að kostnaðurinn varð allt annar.

Það gerðist ýmislegt á árinu. Ýmislegt í launastrúktúrnum breyttist. Það eru ekki eingöngu þessir samningar frá 1997 sem hafa haldið áfram að þróast innan spítalanna. Það var líka gerður samningur af samningaráði Tryggingastofnunarinnar við sérfræðilækna. Við höfum fengið hér bæði úrskurði kjaranefndar og Kjaradóms og ég tel einmitt að samningur Tryggingastofnunarinnar við sérfræðilækna hafi haft veruleg áhrif á báðar þær niðurstöður.

Við stóðum líka frammi fyrir því að það hefur verið gagnrýnt hér á undanförnum árum að við yrðum að standa betur að launakerfi heilbrigðisstétta til þess að tryggja að þær störfuðu í landinu þannig að það er auðveldara um að tala en í að komast. Hins vegar eru kröfurnar í þjóðfélagi okkar og kröfurnar í þjóðfélögunum í kringum okkur líka allar á þann veg að menn krefjast meiri og betri þjónustu. Það eru örar og mjög dýrar tækniframfarir. Það eru örar og mjög dýrar breytingar í lyfjum. Almenningur gerir þessa kröfu þannig að ríkisvaldið er ekki í einföldum málum að standa gegn þessu. Þetta er ekkert einfalt mál. Það er líka þess vegna sem þjóðir Vestur-Evrópu standa allar frammi fyrir þessu sama vandamáli.

Hins vegar er það svo gagnvart störfum fjárln. að við erum að fjalla þar um gríðarlega háar upphæðir sem fara í heilbrigðismálin og vandamál okkar sem vinnum í svona nefnd --- við erum að afgreiða 32--35 þús. millj. í þennan málaflokk --- er að vissulega er mjög margt af þessu í hálfgerðu limbói. Það er voðalega erfitt að festa hönd á þessu. Þetta liggur ekki fyrir í neinu hlutlægu formi. Við höfum ekki heldur neina aðstöðu til, enda hefur það aldrei staðið til, að við í fjárln. Alþingis værum einhverjir rekstrarráðgjafar, hvorki fyrir hundrað fyrirtæki í heilbrigðiskerfinu eða mörg hundruð önnur fyrirtæki. Það sem við höfum verið að velta fyrir okkur og það sem við höfum verið að tala fyrir og segja að væri mjög brýnt er að við yrðum að koma þessu fjárstreymi ríkisins til heilbrigðisstofnana í eitthvert annað form en það er í dag, koma því í hlutlægt form, ekkert endilega til að tryggja að ekki verði yfirkeyrt eða aukning til heilbrigðismála heldur til þess að geta fjallað hlutlægt um hvað sé að gerast, hvert peningarnir streymi. Í dag vantar okkur mjög mikið upp á að geta fjallað um þetta hlutlægt. Menn koma og segja: ,,Okkur vantar 10 millj., 50 millj., 100 millj. eða 500 millj.`` Og svo eru menn að tosast á um þetta.

Herra forseti. Þessi vandamál okkar að halda utan um þetta hafa verið rætt í meira en áratug, nærri tvo áratugi hér í þinginu og mér finnst mikill óvilji einhvers staðar í kerfinu til þess að setja þetta inn í hlutlæg módel. Mig grunar að einhverjir vilji hafa þetta í þessu limbói, enda er reynsluheimur þeirra sem reka spítala og heilbrigðiskerfi einfaldlega sá að það er bara spurning um hvaða ár menn fá alla peningana sem þeir eyða. Það er akkúrat niðurstaðan. Þessu verðum við að breyta. Við verðum að geta hætt að þjarka um það hvort vitlaust sé gefið eða ekki. Það er eilíft skálkaskjól þeirra sem eru að biðja um meiri peninga. Það getur vel verið að það sé vitlaust gefið en við höfum ekkert efnislegt í höndunum til þess að dæma um það. Það er vandamálið.

Ég held að við höfum engar patentlausnir í heilbrigðismálunum til að geta staðið gegn aukningu á kostnaði. Þjóðin er að eldast og það er viðbúið að það eitt kalli á meiri kostnað í komandi framtíð. Við vitum það. Hins vegar verðum við að geta stjórnað fjárstreyminu betur. Við verðum að geta gert það og ég tel að það sé hægt. Það hefur verið sýnt fram á að menn hafa getað náð árangri. Það er hægt að halda betur utan um þetta og ég held að það mundi vera ómaksins vert að eyða verulegum fjármunum, tugum milljóna --- það mundi sparast til lengri tíma litið --- í að smíða módel fyrir heilbrigðisstofnanir þó að það sé ekkert einfalt, þó að við getum aldrei fengið það alveg nákvæmt. Það skiptir heldur ekki meginmáli. Við verðum að fá að vita þetta nokkurn veginn. Við verðum þá að vita hvað er að gerast. Felst kostnaðurinn í því að færa heilbrigðiskerfið allt til hátækni? Erum við kannski að vanrækja fyrirbyggjandi starfið eða grunnþjónustuna? Við höfum ekkert í höndunum til þess að fjalla um það, en það er okkur lífsnauðsynlegt.

Ég nefndi aðeins áðan nál. minni hlutans og sagði að ég gæti alveg verið sammála sumu sem þar segir. Ég tel mig skynja það í starfi fjárln. að ákveðin lausung er svífandi yfir vötnunum í þjóðfélaginu almennt og það er stórhættulegt fyrir okkur. Einfaldasta leiðin til að missa stjórn á einu þjóðfélagi og koma í veg fyrir að við náum hagstæðasta árangri sem umhverfið býður okkur, er að missa stjórn á ríkisfjármálunum. Og ef yfir vötnunum svífur einhver viðmiðun um að þetta sé allt í lagi og að við getum umgengist þau af léttúð, þá erum við að vinna okkur ógagn. Við verðum að reyna að leggja okkur öll fram til þess að menn skilji og skynji að ríkisfjármálin eru alvarlegur hlutur. Það ber að virða fjárlögin og við verðum að leggja okkur öll fram til þess að svo sé gert.

Í nefndarálitinu eru nokkur atriði sem ég get alveg tekið undir. Í nefndarálitið er gerð að umtalsefni sú aðferð sem notuð er í tillögum okkar til þess að greiða upp halla á heilbrigðisstofnunum. Ég ræddi það við 1. umr. fjáraukalaga að við höfum í gegnum tíðina beitt þeirri aðferð að verðlauna menn sem eyddu en veita hinum skammarverðlaunin. Þetta er það sem hefur verið gert. Við erum að gera þetta enn. Það er hægt að gera þetta öðruvísi. Það er hægt að gera þetta á margan annan hátt en þetta var niðurstaðan og við berum öll ábyrgð á því og við flytjum þessa tillögu. En ég vil vekja athygli á því að í brtt. sem koma til umræðu eftir tvo daga við fjárlögin 2000, er þessari aðferð ekki beitt heldur er um framreikning að ræða frá 1999 þannig að þar kemur þetta öðruvísi út. Þannig er ekki verið að refsa þeim sem hafa haldið betur á spöðunum en aðrir, enda líka mjög mikil og brýn nauðsyn á því. Menn eru mismunandi vel á vegi staddir í launaþróuninni. Það liggur fyrir. Menn hafa líka hert mismunandi að sér í viðhaldi, tækjakaupum og öðru slíku þannig að nauðsynlegt er að peningastreymið frá 1999--2000 sé sem jafnast og þannig verða tillögurnar sem verða lagðar hér fram eftir tvo daga, og koma þá heilmikið til móts við það sem verið er að gera, að mínum dómi. Já, ég tek alveg undir það. Það er heilmikið ranglæti í þessu.

Ég er búinn að fara áður yfir það sem þeir segja um launaþróunina og vitna þá í þá ágætu stofnun Ríkisendurskoðun sem gerir mikið úr því að skort hafi leiðsögn af hálfu ráðuneytanna og ég ætla að fara yfir það aftur. Ég er ekki sammála Ríkisendurskoðun um þetta. Hefði bara verið um það eitt að ræða þá hefðum við staðið betur. Ríkisendurskoðun stóð sig ekkert vel í að framkvæma þessa launasamninga heldur. Varla hefur nú vantað á leiðsögnina til þeirra.

[17:15]

Mér finnst hins vegar líka rangt það sem þeir segja í stjórnarandstöðunni að svo rosalega stórt hlutfall af fjáraukalögunum hefði verið fyrirsjáanlegt. Ég tel það alrangt hjá þeim. Launasamningarnir voru ekkert fyrirsjáanlegir. Er menn stóðu í þessum sal fyrir ári gátu þeir ekki gert sér grein fyrir því að þetta mundi ganga svona fram, það er bara rangt. Við verðum að átta okkur á því þegar við erum að ræða um laun að þetta eru mjög viðkvæmir hlutir. Við getum ekki og megum aldrei nokkurn tíma segja að einhver hafi fengið of mikið í sinn hlut o.s.frv. Þetta verður að umgangast með mikilli varfærni þannig að það er rangt að við hefðum getað séð þetta svo stórlega fyrir þó að það sé rétt sem hefur komið fram í ræðum þeirra að þarna eru atriði sem var vissulega hægt að sjá fyrir og það er hægt að vanda sig meira en kemur þarna fram í öllum stöðum.

Mér finnst hugleiðingar um efnahagsmál í fyrri hluta nál. mjög athyglisverðar og ég vil gera það aðeins að umræðuefni, herra forseti. Ekki það að ég sé svo mjög ósammála þeim heldur finnst mér athyglisvert að þeir skrifi þennan texta. Á bls. 1 í nál. segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Lækkanir á tekjuskatti leiða til þess að almenningur hefur að öðru jöfnu meira fé til ráðstöfunar. Þar af leiðandi eykur tekjuskattslækkun kaupmátt og þar með einkaneyslu. Sé tekjuskattsstigið lækkað í miklu góðæri herðir það á þessu ferli. Viðskiptahallinn verður þá meiri og verðbólguþrýstingur líka. Ábyrg stjórnvöld lækka því ekki tekjuskatt hjá öllum þorra landsmanna á tímum mikils góðæris og vaxandi viðskiptahalla.``

Svo mörg eru þau orð. Ég vil minna á það að ríkisstjórnin stóð fyrir tekjuskattslækkun með samningum við launþega Íslands, samningum við Alþýðusambands Íslands. Ég var sannfærður um það, herra forseti, þó kannski einhverjir aðrir efist um það, að sú tekjuskattslækkun, hvort sem hún var rétt eða röng, var lykillinn að mjög farsælum samningum sem gerðir voru og hefur tryggt mikinn vinnufrið. Menn skyldu fara varlega þegar þeir fordæma tekjuskattslækkanir eins og þær sem framkvæmdar voru af ríkisstjórninni á árunum 1997--1999.

Hins vegar finnst mér, herra forseti, að þessi texti í nál. gefi manni tækifæri til þess að spyrja nefndarmennina, þ.e. fulltrúa stjórnarandstöðunnar, sósíaldemókratana sem þar eru: Er þetta þá yfirlýsing þeirra um að þeir séu tilbúnir að standa að skattahækkunum ef menn teldu þess þörf, ef efnahagslífið væri þannig? Er þetta yfirlýsing frá þeirra hálfu að þeir teldu það kannski skynsamlega efnahagsráðstöfun að auka skyldusparnað eða auka þvingaðan sparnað? Þetta er bein yfirlýsing um það. Ég tel það mjög gott og merkt innlegg í efnahagsmál okkar gagnvart þeim viðfangsefnum sem við kunnum að standa frammi fyrir á næstu missirum og næstu árum.

Í næsta kafla, lið 2, segir á nál., með leyfi herra forseta:

,,Viðnám gegn verðbólgu og viðskiptahalla felst m.a. í að takmarka aukningu útlána og peningamagns í umferð. Það er hægt með því að takmarka svigrúm banka til að lána fjármagn og draga þannig úr útstreymi peninga frá þeim.``

Ég er nákvæmlega sammála þessu. Hins vegar liggur það fyrir að bankar, peningastofnanir í landinu, starfa bara samkvæmt þeirri umgjörð sem lögin gefa þeim á hverjum tíma. Þeim ber að græða peninga og þess vegna eru þeir að starfa til að græða peninga. Þessi yfirlýsing stjórnarandstöðunnar er þá bein yfirlýsing um það að ef við teljum að við þyrftum að takmarka starfsemi banka núna eða á næstunni að stjórnarandstaðan er t.d. tilbúin að styðja aðgerð eins og að auka bindiskyldu. Þetta hlýtur að vera yfirlýsing um það. Það er merkilegt innlegg í það hvers við eigum að vænta á næstu vikum, mánuðum og missirum í umræðu okkar um þau efnahagsmál og þá þenslu sem við erum að glíma við. Mér finnst það mjög þakkarvert og virðingarvert þegar stjórnarandstaðan skrifar svo skýra og ábyrga texta.

Herra forseti. Ég vil ítreka enn einu sinni ummæli formanns nefndarinnar, hv. þm. Jóns Kristjánssonar, að gríðarleg þörf er á því að það verði ekki misskilið á neinn hátt í þjóðfélaginu þó að við séum að leggja mikla peninga inn í fjáraukalög. Það varð niðurstaðan að það yrði að borga það sem væri búið að stofna til, yrði að borga skuldir heilbrigðisstofnananna, það væri búið að stofna til þeirra og það væri ábyrgðarleysi annað en að borga þær. Þetta var niðurstaðan og við sem stöndum að þessu nál. berum alla ábyrgð á því og stöndum fyrir því.

Hins vegar er það svo í þjóðfélagi eins og okkar að eins og staðan er í efnahagsmálum er gríðarlega nauðsynlegt, og við verðum að undirstrika það með öllum ráðum, að það er full meining og full alvara ríkisstjórnarinnar að við verðum að umgangast efnahagsmálin af mikilli varfærni núna því við erum sannarlega á hálu svelli. Þess vegna er mjög þýðingarmikið að enginn misskilji það. Enginn má líta á þessar aðgerðir, að greiða upp skuldir heilbrigðisstofnana, sem einhverja léttúð af hálfu stjórnvalda. Við erum á mjög hálu svelli þegar við erum með svo mikinn viðskiptahalla, með svo mikinn vaxtamun á breytilegum vöxtum. Þá verðum við að gæta þess að allir skilji það rétt að menn ætla að leggja sig alla fram um aga í ríkisfjármálunum.

Við getum að sjálfsögðu ekki staðið hér og lofað því að aldrei verði halli aftur á fjárlögum ríkisins, það getum við ekki. Við getum ekki heldur sagt að fjáraukalögin muni alltaf koma fram á hverju hausti en við þurfum að leggja okkur alla fram til þess að koma í veg fyrir að það verði um svo mikinn halla ræða eins og raun ber vitni núna því það má ekki endurtaka sig.