Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 17:23:16 (2450)

1999-12-07 17:23:16# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[17:23]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að hann talaði um að það væru eflaust einhverjir sem vildu vera áfram með málið í ,,limbói`` eins og það hefur verið á umliðnum árum. Málið er það að margar heilbrigðisstofnanir hafa varað við þessari þróun allar götur frá 1990 þegar svokölluð daggjaldanefnd var nánast tekin úr sambandi. Þá gerist það merkilega í þessu að ríkisvaldið, sem er kaupandi þessarar þjónustu, ákveður sjálft hvað það ætlar að borga fyrir hana. Það er ekki farið í neinar innri skoðanir hvorki varðandi þjónustuþáttinn, hvaða þjónustu þessar öldrunarstofnanir eiga að veita eða ætla að veita, heldur er gengið út frá ákveðnum daggjöldum þessara stofnana sem taka síðan engum breytingum í samræmi við það sem gerist í umhverfinu, hvorki hvað áhrærir hækkanir ýmissa þjónustugjalda og jafnvel skattalegra álagna ríkissjóðs, hvað þá heldur þá miklu launaþróun sem varð.

Svo ég taki sérstaklega heimili aldraðra liggur ljóst fyrir að allar götur frá 1990 hafa þessar öldrunarstofnanir, verið á undanhaldi á milli 8% og 9% núna í mörg ár, þ.e. að ríkið hefur ekki hækkað daggjöld í samræmi við launa- og verðlagsþróun. Þess vegna er það líka mjög miður að menn skuli koma upp í ræðustól og segja að það sé rétt að taka duglega í afturendann á stjórnendum þessara heimila því að þeir hafi ekki haldið á málum sem skyldi.

Málið hefur einfaldlega verið það að þróun þessara mála hefur bara verið á einn veg, það er ríkið sem hefur ákveðið hvað það ætlar að greiða. Ég er alveg sannfærður um það að ég og Einar Oddur Kristjánsson, flokksbróðir minn, erum aldeilis ekki á því máli að þegar kaupandi og seljandi semja um vöru sé það bara annar aðilinn sem ákveður verð. Það hlýtur alltaf að þurfa a.m.k. tvo til.

Þetta er sagan á bak við þær ógöngur sem flest heimili og þeir sem eru að veita öldruðum þjónustu í dag eru komnir í. Það er ekki vegna þess að þar hafi menn almennt haldið mjög illa á spilum.