Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 17:27:26 (2452)

1999-12-07 17:27:26# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[17:27]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða síðasta ræðumanns talaði ég um það sem hann kom að í ræðu sinni að það væru eflaust einhverjir sem vildu halda þessum málum í óljósri stöðu eða eins og hann sjálfur tók til orða, vildu hafa þetta í einhverju limbói áfram. Ég held að það séu engir hugsandi menn í heilbrigðisþjónustunni sem vilja hafa þetta þannig. Menn vilja auðvitað vinna að þessu af heilindum og hafa einhverja greiðsluviðmiðun, einhverja reglustiku, eins og hv. þm. kom inn á. Það er sjálfsagt og eðlilegt og átti náttúrlega fyrir löngu að taka upp að það væri einhver mælieining á því hvað á að greiða fyrir þjónustuna. Það er líka spurning þeirra sem njóta þjónustunnar, ekki eingöngu ríkisins, heldur þeirra sem eru vistmenn á þessum heimilum aldraðra, hvaða þjónustu þeir eigi að fá fyrir það fé sem þeir greiða á mánuði til viðkomandi öldrunarheimilis. Það er eitt sem vantar líka. Það er ekki nóg að það sé bara mælistika af ríkisins hálfu hvað þeir ætla að borga heldur þarf líka að setja upp hvaða þjónustu á þá að veita á þessum heimilum. Það vantar.

Það er líka mjög miður að þetta skuli hafa farið út í að það sé tvöfalt kerfi í gangi, annars vegar hjúkrunarheimili á föstum fjárlögum og svo daggjaldastofnanir. Þá hafa menn löngum leikið þann leik þegar illa hefur árað og ekki hefur verið til fjármagn til þess að reka hjúkrunarheimili á föstum fjárlögum að vistmönnum hefur jafnvel verið fækkað til þess að mæta auknum kröfum eða auknum útgjöldum.

Að lokum þetta, herra forseti. Ég tel auðvitað að þau fyrirheit sem hér er stigið á stokk með séu af hinu góða. Hér eru heit strengd um að það skuli haldið þannig á þessum málum að aðilar þurfi ekki að koma ár eftir ár vegna þess að það sé bara annar aðilinn sem ákveður hversu mikið á að greiða fyrir þjónustuna. Það er vonandi að það verði nú stigið gott limbó á milli ríkisvalds og þeirra aðila sem eru að veita þessa þjónustu þannig að allir megi nokkuð sáttir við una.