Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 18:36:53 (2466)

1999-12-07 18:36:53# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, GIG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[18:36]

Gunnar Ingi Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg augljóst þrátt fyrir ábendingar hv. þm. að þetta er uppsafnaður vandi að hluta til. Það er m.a. vegna þess að þegar flatur niðurskurður var fyrirskipaður varð framleiðniaukning á sama tíma, fjölgun sjúklinga þrátt fyrir óbreyttar tölur á bak við reksturinn á sumum deildum. Á sama tíma og þetta viðgekkst var öll endurnýjun á tækjum stöðvuð, allt viðhald stöðvað og annað það sem var geymt til betri tíma. Það er náttúrlega alls ekki rétt að ekki hafi safnast upp vandi, það veit ég. Það merkilega var að á sama tíma og niðurskurðurinn var í gangi tókst samt mörgum stofnunum að auka starfsemi sína en það var fyrir þær sakir að fólk lagði á sig meiri vinnu, keyrði sig út einmitt til að reyna að standa sig. Sumt af þessu fólki hefur upplifað framlag sitt þannig að það hafi fyrir þetta fyrst og fremst fengið skömm í hattinn og gagnrýni fyrir það síðar meir að hafa farið fram úr áætlun. En ég fullyrði að vandi safnaðist upp árum saman og ég varð vitni að því sjálfur á sjúkrastofnunum að svo var.