Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 19:05:05 (2469)

1999-12-07 19:05:05# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[19:05]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fór viðurkenningarorðum um nál. minni hlutans áðan þar sem þeir ræða um áhrif skattkerfisins á kaupmátt launa. Mér fannst það mjög virðingarvert af þeim að skrifa þetta niður. Það skiptir engu máli hvort samstaða var meðal verkalýðshreyfingarinnar eða mismunandi túlkun um hvernig þessi skattalækkun átti að vera. Hún hefur nákvæmlega sömu áhrif, það skiptir engu máli hvaða útfærsla væri á því. Það var líka deilan um útfærsluna á því, ekki um skattalækkunina sjálfa sem var grundvöllurinn að þessum samningi.

Í öðru lagi vil ég gera athugasemd við það að hér sé verið að stefna til einhverrar einkavæðingar í heilbrigðismálum. Það er alger samstaða um að fjármagna heilbrigðiskerfið af hinu opinbera. Það hefur ekkert lát verið á því. Ísland er í hópi þriggja, fjögurra þjóða sem borga mest af opinberu fé til heilbrigðiskerfisins. Það er enginn jafnhár okkur, nema Svíar, Bandaríkjamenn og stundum Norðmenn ef við tökum tímann fyrir 10 árum. Við erum að fjármagna það fyrst og fremst með opinberu fé. Hins vegar eru Íslendingar sjálfir að borga tiltölulega lítið fé í heilbrigðiskerfið, mun minna en OECD- og ESB-löndin. Það hefur tíðkast hér áratugum saman að elliheimili væru í eigu alls konar stofnana. Það er ekkert nýtt í því. Einmitt þegar verið er að reyna að mæla hjúkrunarþyngdina til að tryggja að greiðslurnar séu nær sanni, og segja að það sé einhver vitnisburður um að við ætlum að fara að hverfa frá ævafornum íslenskum hefðum um heilbrigðismál er fjarstæða, bull og vitleysa.