Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 19:07:23 (2470)

1999-12-07 19:07:23# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[19:07]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég vakti máls á þessu með skattana áðan er sú að ég var að leiðrétta hv. þm. Einar Odd Kristjánsson sem sagði að þessar breytingar hefðu verið gerðar í samningum við verkalýðshreyfinguna. Það er rangt. Ég leiðrétti það. Þetta voru hugmyndir sem upphaflega komu frá nokkrum samböndum innan Alþýðusambandsins, en um þessar hugmyndir var ekki samstaða og þær hafa verið gagnrýndar síðan.

Það skiptir máli hvernig skattbreytingar eru gerðar. Það skiptir máli upp á neyslu þjóðarinnar, hverjir hafa peninga á milli handa og hvernig þeim peningum er varið. Það skiptir máli til hvaða skattaráðstafana er gripið.

Einkavæðing er ekki á dagskrá, segir hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Hvar hefur hv. þm. haldið sig? Les hann ekki blöðin? Hefur hann ekki fylgst með umræðu um einkaframkvæmd? Er honum ekki kunnugt um að verið er að bjóða út elliheimili á Reykjavíkursvæðinu? Leggur hv. þm. að jöfnu Dvalarheimili aldraðra sjómanna, rekstur sjómannasamtaka eða berklasjúklinga á heilbrigðisþjónustu og Securitas eða Ístak? Skilur hann ekki muninn á því sem er að gerast núna með þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur boðað um að gera velferðarþjónustuna að atvinnurekstri sem menn hafi arð af? Ég verð að segja, herra forseti, að á meðan menn skilja ekki þessi grundvallaratriði og gera sig bera að annarri eins fáfræði og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gerir um þá þróun sem hér er að eiga sér stað, þá ætla ég bara að biðja fyrir okkur.