Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 19:26:26 (2476)

1999-12-07 19:26:26# 125. lþ. 37.4 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[19:26]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þetta frv. um Póst- og fjarskiptastofnun er eins konar tvíburafrv. við frv. um fjarskipti sem hefur verið rætt í fyrri umræðu. Þetta var svo sem allt saman fyrirséð þegar ráðist var í að gera Póst- og símamálastofnun að hlutafélagi að þá mundi hið sama eiga sér stað á Íslandi og hefur gerst annars staðar. Reyndar tekur þessi þróun mið af því sem ákveðið er í Evrópu, af Evrópusambandinu, en það sem var fyrirsjáanlegt er þetta: Menn koma á samkeppni á þessu sviði og síðan blása menn eftirlitsiðnaðinn út. Þetta er það sem var fyrirséð. Eins og við vitum eru eftirlitsstofnanirnar, sem þenjast út í sovéskum stíl, kröftugasti atvinnuvegur núna á meginlandi Evrópu, og við erum einnig að byrja að fá smjörþefinn af þessari þróun.

Það sem ég vildi segja í tengslum við umræðuna er fyrst og fremst að það skiptir miklu máli að horfa til framtíðar, að við höfum mjög skýra framtíðarsýn varðandi skipulag Póst- og símaþjónustunnar í landinu. Nú kann vel að vera að það tengist ekki þessum frumvörpum beint eða þessari lagasmíð sérstaklega hvað við gerum með sjálft grunnnetið, sem ég skal játa að ég átta mig ekki alveg fyllilega á hvernig beri að skilgreina, þ.e. hvað er raunverulega átt við með grunnneti. Hugsanlega er það loðið og teygjanlegt eins og einhvern tíma var komist að orði.

Hugsun mín er sú að ég skil það sjónarmið að unnt sé að hafa samkeppni á netinu, að netið sé í eigu almennings, í eigu ríkisins en síðan geti farið fram samkeppni á því. Við gætum hugsað okkur járnbrautakerfið í Bretlandi, að teinarnir væru í eigu ríkisins en síðan færi fram samkeppni ofan á þessum teinum. Undarlegt þótti mér einmitt þegar ákvörðun var tekin um það í London á sínum tíma að einkavæða allt í einum pakka, teinana og lestirnar einnig og var þá komin til sögunnar einokun. Maður hlýtur að hugsa líka um það hver framtíðarsýnin er að þessu leyti varðandi netið.

[19:30]

Nú kann vel að vera að hægt sé að hugsa sér ákveðna tryggingu í því að stærsta og öflugasta fyrirtækið hafi ákveðnar skyldur við landsmenn lögum samkvæmt, hafi þetta grunnnet á sinni hendi og eigi að sinna grunnþjónustu við landsins þegna, ég skil þá hugsun. Við erum bara að fara inn í annað og mjög svo breytt alþjóðlegt umhverfi. Svo kann að fara að Landssíminn verði ekki sá sterki aðili í landinu sem hann er núna. Þar kunna aðrir að koma til greina.

Mér finnst rökrétt að huga að því að grunnnetið sé á hendi almennings, ríkisins, en síðan fari fram samkeppni á þessu neti. Þetta var hugmyndin sem ég vildi koma á framfæri áður en þessi frv. fara til frekari vinnslu. Ég geri mér grein fyrir því að hægt væri að ráðast í þær breytingar sem ég hef talað fyrir, að taka grunnnetið frá Landssímanum á síðari stigum og óháð þessum lögum.

Að öðru leyti vil ég segja að mér finnst við einnig þurfa að taka til rækilegrar umræðu, til hverra svonefnd alþjónusta eigi að ná. Samkvæmt þeim hugmyndum sem nú eru uppi á hún að ná til talsímans, að allir landsmenn eiga að hafa aðgang að honum og einnig að gagnaflutningum. Það er hið besta mál en spurningin er hins vegar: Hvað um sjómennina? Þeir hafa notið þjónustunnar og eiga að mínum dómi að gera það. Þeir eru undanskildir alþjónustu en ég hefði talið æskilegt að sjómennirnir og flotinn væru skilgreindir þannig að þeir hafi rétt til þessarar þjónustu.

Ég skal játa að ég á talsvert ólært í þessum frv. og í þeim kerfisbreytingum sem hér er verið að leggja til. Mig langaði á þessu stigi til að koma þessum vangaveltum á framfæri, einkum og sér í lagi vegna þess að hæstv. samgrh. hefur marglýst því yfir opinberlega, m.a. hér á Alþingi, að hann sjái ekki ástæðu til þess skilja grunnnetið frá Landssímanum áður en hann yrði seldur. Ég hvet hæstv. ráðherra til að gefa þessari hugsun frekari gaum með hliðsjón af því sem líklegt er að gerist í framtíðinni.