Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 22:28:21 (2482)

1999-12-07 22:28:21# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[22:28]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hefur nú mælt fyrir þáltill. um Schengen-samstarfið en framkvæmd þess hvílir að stórum hluta á dómsmrn. og undirstofnun þess. Í því ljósi tel ég rétt að fjalla sérstaklega um tillöguna og áhrif hennar.

Íslendingar eru í auknum mæli þjóð á ferðalagi. Það er ekki einungis að Íslendingar ferðist í auknum mæli til annarra ríkja heldur fara tekjur Íslands af ferðaþjónustu vaxandi. Að mínu mati yrði það til hagsbóta fyrir íslenska ferðamenn og íslenska ferðaþjónustu ef við getum í auknum mæli aflétt hömlum á umferð farþega. Þannig er afnám persónueftirlits líklegt til að hafa jákvæð áhrif á viðskipti við Evrópuríki og ferðir viðskiptamanna sem og ferðir almennings hingað til landsins. Þá má benda á að umferð innan Schengen-svæðisins í flugi fær bestu aðstöðu á flugvöllum og skiptir það sérstaklega máli í sambandi við tengiflug og þann tíma sem líða má frá áætlaðri komu til flugvallar og brottfarar tengiflugs. Því má ætla að þátttaka okkar í Schengen-samstarfinu sé til hagsbóta fyrir alla landsmenn, ferðaþjónustuna og viðskiptalífið í heild sinni.

Eins og hæstv. utanrrh. hefur þegar getið um þá býr meira að baki Schengen-samstarfinu en það að persónueftirlit á innri landamærum aðildarríkjanna er afnumið. Ég hef leyft mér að kalla þátttöku okkar í Schengen-samstarfinu hinn nýja varnarsamning, nú gegn allt öðrum öflum en sá varnarsamningur sem við þekkjum manna best. Að þessu sinni eru það ekki hernaðaröfl sem ógna öryggi okkar heldur skipulagðir hópar afbrotamanna sem einskis svífast til að koma ár sinni fyrir borð í ríkjum innan sem utan ESB.

[22:30]

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, herra forseti, að í auknum mæli verði í samfélagi okkar vart við það sem almennt má fella undir skipulagða afbrotastarfsemi og ber í mörgum tilvikum svip alþjóðlegrar afbrotastarfsemi. Má í því sambandi nefna fíkniefnasmygl og peningaþvætti. Einnig er svo komið að hér á landi þrífst orðið starfsemi sem er oft talin vera eitt einkenni skipulagðrar alþjóðlegrar afbrotastarfsemi og starfsemi af þessu tagi á sér langa sögu í aðildarríkjum Schengen og hafa ríkin í auknum mæli tekið upp samstarf í því skyni að spyrna á móti þessari þróun. Sýnir þetta í hnotskurn að afbrotastarfsemi virðir engin landamæri jafnvel þó landamæra sé gætt. Engin landamæri dagsins í dag stöðva afbrotamanninn í ætlunarverki sínu.

Með þátttöku í Schengen-samstarfinu opnast íslenskum yfirvöldum ýmsar dyr að samstarfi aðildarríkjanna sem er ætlað að berjast gegn þeim vágesti sem afbrotastarfsemi af þessu tagi er. Auk þess er það trú mín að eftir að hafa styrkt lögregluna innan lands með þeim hætti sem gert hefur verið undanfarin missiri og framhald verður á beri að stefna að víðtækri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi sem beinist að baráttu gegn afbrotum. Íslensk stjórnvöld geta ekki með nokkru móti varið að sérstaða okkar sé þvílík að alþjóðlegt samstarf í víðtækum skilningi komi ekki til góða í þeirri baráttu sem nánast er háð á hverjum degi hér á landi gegn afbrotastarfsemi í ýmsum myndum.

Í þessu sambandi vil ég geta þess að nýlega átti ég kost á að sitja fund með kvendómsmálaráðherrum frá ýmsum ríkjum og var það samdóma álit þeirra að aukin alþjóðleg samvinna væri grundvöllur að hertri baráttu gegn afbrotum. Í sömu ferð átti ég þess einnig kost að eiga fund með dómsmrh. Bandaríkjanna og ræddum við nauðsyn þess að efla gagnkvæma aðstoð og samvinnu og miðlun upplýsinga milli landanna. Þótti henni fyrirhugað samstarf okkar við Evrópusambandsríkin á þessu sviði vera mjög athyglisvert.

Þátttaka í Schengen-samstarfinu er einn af þeim þáttum sem koma til með að styrkja okkur í þeirri viðleitni okkar að berjast gegn afbrotum með öllum tiltækum ráðum. Grípa aðildarríkin, samhliða því að afnema persónueftirlit á innri landamærum sínum, til ýmissa aðgerða til að styrkja innra öryggi. Rétt er þó að taka fram að þrátt fyrir afnám persónueftirlits verður tollgæsla á bæði ytri og innri landamærum óbreytt.

Varðandi aðgerðir til að styðja og styrkja innra öryggi ber fyrst að telja að aðildarríkin taka upp nánara samstarf milli lögregluyfirvalda. Skuldbinda aðildarríkin sig til að vinna almennt náið saman á þessum vettvangi auk þess sem þau hafa orðið ásátt um tilteknar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir og upplýsa afbrot. Í því sambandi má nefna heimildir lögreglu til aðgerða á landsvæði annars aðildarríkis að uppfylltum ströngum skilyrðum og með ákveðnum takmörkunum. Hér ber að nefna tilvist Schengen-upplýsingakerfisins sem nefnt hefur verið SIS eða Schengen Information System sem er mikilvægt tæki í að hafa uppi á afbrotamönnum hvar sem þeir eru staddir á Schengen-svæðinu og til að hindra að ætlaðir afbrotamenn komist inn á svæðið. Til að styrkja þetta samstarf enn frekar er komið á beinum samskiptum milli lögregluyfirvalda aðildarríkjanna sem tryggja greiða upplýsingamiðlun og skjót viðbrögð þegar á þarf að halda. Norðurlöndin hafa verið í sérstöku samstarfi um upplýsingakerfið og m.a. farið í sameiginlegt útboð til uppsetningar á því.

Nú er verið að undirbúa hér á landi stofnsetningu SIRENE-skrifstofu hjá ríkislögreglustjóra, sem annast mun upplýsingaskipti og starfsrækslu Schengen-upplýsingakerfisins hér á landi. Einnig má nefna að komið verður á fót Vision-upplýsingakerfi hjá Útlendingaeftirlitinu sem tengist samráði og sameiginlegum reglum um útgáfu vegabréfsáritana.

Í þessu sambandi er og rétt að nefna að aðildarríki ESB hafa innbyrðis gengið lengra á sviði lögreglusamstarfs, m.a. með því að setja á stofn EUROPOL þar sem fram fer náið samstarf milli aðildarríkja við rannsókn á tilteknum afbrotum. Gert er ráð fyrir því að EUROPOL gangi til samninga um samstarf við ríki sem eru utan ESB. Af Íslands hálfu hefur þegar verið með formlegum hætti lýst yfir áhuga á gerð slíks samnings og er ástæða til að ætla að þátttaka okkar í Schengen komi til með að verða til þess að Ísland verði meðal fyrstu ríkjanna til að gera slíkan samning. Það er samdóma álit íslenskra sérfræðinga sem hafa kynnt sér starfsemi EUROPOL að fengur muni verða að þessu samstarfi þegar kemur að málum er varða alþjóðlega afbrotastarfsemi. Samstarfið veitir okkur aukinn slagkraft í baráttu gegn skipulögðum afbrotahópum er hafa tengst við aðildarríki ESB eða þau ríki sem kunna að gera samstarfssamning við EUROPOL.

Ekki er síður mikilvægt í þessu sambandi að náið samstarf sé á milli aðildarríkjanna þegar kemur að því að grípa til nauðsynlegra aðgerða í tilefni afbrota. Innan Schengen-samstarfsins er að finna reglur er ganga lengra en þeir samningar sem Ísland á aðild að í dag til að tryggja bein og greiðari samskipti milli yfirvalda aðildarríkjanna á sviði réttarsamvinnu og gagnkvæmrar réttaraðstoðar í sakamálum. Er þar m.a. átt við bein samskipti í því skyni að leita eftir framsali sakamanna og rannsóknaraðgerðir í sakamálum. Einnig má nefna ákvæði um afhendingu undir eftirlit, bein upplýsingaskipti o.fl. Þetta eru allt mjög mikilvæg atriði og er ástæða til að ætla að þau muni styrkja mjög lögreglu hér á landi í baráttunni gegn skipulegri brotastarfsemi og gera henni í auknum mæli kleift að bregðast fyrr og markvissar við málum er teygja anga sína út fyrir landsteinana. Þekkjum við vel mikilvægi atriða af þessu tagi úr norrænu samstarfi þar sem úrræði sem þessi hafa verið til staðar um áratuga skeið og í dag er einmitt haldinn í Reykjavík samráðsfundur norrænna lögregluliða og tollgæslu. Á undanförnum vikum og mánuðum höfum við séð glögg dæmi þess að samvinna við önnur lönd hefur skilað okkur mjög góðum árangri í baráttunni gegn fíkniefnum.

Ýmislegt bendir til þess að koma ólöglegra innflytjenda til landsins fari vaxandi. Aðildarríkjum Schengen var ljóst að samfara afnámi persónueftirlits á innri landamærum yrði að styrkja eftirlit gegn straumi ólöglegra innflytjenda. Ríkin hafa með sér náið samstarf á því sviði sem annars vegar beinist að því að styrkja eftirlit á ytri landamærum svæðisins auk þess sem samstarf innan svæðisins er aukið í því skyni að koma í veg fyrir umferð ólöglegra innflytjenda innan þess og bregðast eftir atvikum við slíkri umferð. Er þannig gert ráð fyrir að Ísland taki þátt í samstarfi ESB sem tryggi öryggi Íslands að þessu leyti. Munu sérstakar samningaviðræður um þátttöku Íslands í svonefndu Dyflinnarsamkomulagi hefjast innan tíðar auk þess sem gert er ráð fyrir að tekið verði þátt í svonefndu EURODAC-kerfi um fingrafaraskráningu og sem nánari grein er gerð fyrir í fyrirliggjandi tillögu. Auk þess mun Ísland taka þátt í frekara samstarfi við aðildarríki ESB sem ætlað er að tryggja öryggi að þessu leyti og eftir atvikum tryggja að fólki verði snúið til baka komi það hingað með ólöglegum hætti frá öðrum aðildarríkjum á svæðinu.

Herra forseti. Það verður ekki fram hjá því litið að með samstarfi við ESB á þeim sviðum sem hér um ræðir hefur Ísland fikrað sig inn á nýjar brautir í samstarfi við sambandið. Það er óneitanlega ekki einfalt að finna samstarfi við ESB farveg sem fullnægt getur kröfum stjórnskipunar Íslands með hliðsjón af uppbyggingu sambandsins sjálfs. Á hinn bóginn hefur að mínu mati tekist vel til í þessum samningi þar sem þátttaka Íslands í mótun ákvarðana er tryggð án þess að stofnunum ESB sé fengið úrlausnarvald gagnvart Íslandi.

Það er hins vegar einnig mikilvægt í samstarfi af þessu tagi að tryggt sé að ráðherrar aðildarríkjanna geti formlega átt með sér pólitískt samráð um samstarfið. Í þessu efni hefur einnig vel tekist til í samningnum. Fer ég með formennsku í samsettu nefndinni á vettvangi ráðherra fram til áramóta. Hafa tveir fundir farið fram undir stjórn Íslands þar sem saman voru komnir ráðherrar aðildarríkja ESB auk Íslands og Noregs. Á þessum fundum hef ég vakið athygli á að Ísland og Noregur leggja pólitíska áherslu á sem víðtækasta nálgun landanna að Schengen-samstarfinu, m.a. með tillit til aukinnar lögreglusamvinnu. Þá vil ég geta þess að á síðari fundinum var gert samkomulag um að Grikkland muni hefja fulla framkvæmd Schengen-samningsins eigi síðar en 26. mars nk. Verða Schengen-ríkin þá orðin tíu, Norðurlöndin eru nú öll að undirbúa þátttöku í samstarfinu og Bretland mun innan tíðar hefja þátttöku í þeim hlutum samstarfsins sem ekki krefjast þess að persónueftirlit á innri landamærum verði afnumið. Þannig munu þau ríki sem taka þátt í Schengen-samstarfinu verða fleiri.

Er ljóst eftir reynslu undanfarinna mánaða að með þessu fyrirkomulagi hefur verið skapaður virkur vettvangur til pólitísks samráðs milli Íslands og aðildarríkja ESB á sviði sem á eftir að ganga í gegnum öra þróun á næstu missirum.

Herra forseti. Ég vil fá að nota þetta tækifæri og gera í stuttu máli grein fyrir nauðsynlegum lagabreytingum svo unnt verði að fullnægja þeim skuldbindingum sem leiða af þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Í dag mun ég mæla fyrir tveimur frv. sem varða þetta atriði og ber þar fyrst að nefna frv. til laga um Schengen-upplýsingakerfið. Upplýsingakerfið er meðal þeirra mikilvægu tækja sem lögreglu verða fengin til að styrkja baráttuna gegn afbrotum.

Í öðru lagi mun ég mæla fyrir frv. til laga um breytingu á ýmsum lögum sem nauðsynlegt er að gera í tengslum við þátttöku í samstarfinu. Auk þess mun ég fljótlega mæla fyrir frv. til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga en það frv. miðar m.a. að því að Ísland fullnægi skuldbindingum sem felast í þátttöku í Schengen-samstarfinu.

Að lokum er gert ráð fyrir að leggja fram fljótlega á nýju ári frv. til laga um breytingu á lögum um eftirlit með útlendingum þar sem tekið verður á ýmsum þeim þáttum er snúa að landamæraeftirliti, dvalarleyfum og vegabréfsáritunum.

Herra forseti. Það er staðföst trú mín að þátttaka okkar í Schengen-samstarfinu skili ekki bara jákvæðum áhrifum fyrir íslenska ferðamenn og ferðaþjónustu. Ljóst er að þátttaka okkar styrkir okkar eigið landamæraeftirlit en mun ekki síður færa okkur í hendur nánara alþjóðlegt samstarf sem mun styrkja yfirvöld hér á landi í baráttunni gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi. Það er skylda okkar að bregðast við þeirri óheillaþróun sem við verðum vitni að þessa dagana á ýmsum sviðum. Þátttaka í Schengen er mikilvægur þáttur þeirra viðbragða.