Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 22:53:45 (2488)

1999-12-07 22:53:45# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, SJS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[22:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, talsmaður Samfylkingar, talaði hér endurtekið áðan um ferðafrelsi og frjálsa för. Ég held að það sé mjög mikill misskilningur að leggja hlutina þannig upp að í þessu frv. felist einhver breyting hvað varðar frelsi ferðamanna t.d. til að ferðast um Evrópu. Málið er hins vegar í áróðursskyni gjarnan sett þannig fram. Hér eiga í öllum tilvikum í hlut lönd sem hafa afnumið skyldu til vegabréfsáritunar sín í milli og för ferðamanna t.d. milli Bretlands sem verður utan Schengen-svæðisins, a.m.k. í byrjun, og meginlands Evrópu verður að sjálfsögðu jafnfrjáls og hún hefur verið.

Málið snýst ekki um þetta. Það snýst um að fella niður heimildir ríkja til þess að halda yfir höfuð uppi landamæraeftirliti og persónulegri skoðun á skilríkjum eða vegabréfum, eftirliti sem reyndar er þegar búið að fella niður í mjög miklum mæli á meginlandi Evrópu, eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir veit sjálfsagt.

Að öðru leyti finnst mér það hins vegar skiljanlegt að þeir hv. þm. sem hafa á sinni stefnuskrá að Ísland gangi í Evrópusambandið séu jákvæðir og hrifnir af aðild Íslands að þessum samningi. Það er rökrétt, af því að búið er að innlima hann í Evrópusambandið. Og ég hef grun um að hv. 12. þm. Reykn., Þórunn Sveinbjarnardóttir, sé í hópi áhugamanna um það mál. Annars ætla ég ekki að gera henni upp skoðanir.

Herra forseti. Í öðru lagi verð ég að segja alveg eins og er að mér hefur fundist forleikur hæstv. dómsmrh. í þessu máli nokkuð sérkennilegur undanfarna daga. Hæstv. dómsmrh. hefur farið hamförum í fjölmiðlum, oft í viðtölum við tiltekna fréttamenn, og verið í svona sérstöku fyrirfram\-áróðursstríði fyrir ágæti þessa máls sem hefur beðið umræðu á hinu háa Alþingi. Og mér hefur fundist málflutningur hæstv. dómsmrh. ótrúlega einhliða. Sama verð ég að segja um ræðu hennar hér áðan. Hún var ótrúlega einhliða gylling á kostum og því góða sem vel má vera að verði samfara þessu máli, a.m.k. að einhverju leyti. En hæstv. dómsmrh. minnst ekki einu einasta orði í ræðu sinni á þær áhyggjur sem menn mjög víða hafa, efasemdir og gagnrýni sem þetta mál hefur fengið úr ýmsum áttum, m.a. frá kollegum hæstv. ráðherra í öðrum löndum eða lögreglu og tollayfirvöldum í mörgum af aðildarríkjunum, t.d. í Noregi, Frakklandi og Svíþjóð. Ég verð að segja að ræða hæstv. utanrrh. var þó að þessu leyti í mun betra jafnvægi því að hæstv. ráðherra var á fremur hógværum nótum þegar hann var að rökstyðja hér ágæti málsins sem hann taldi þó meira en ... (Gripið fram í: Röddin er líka léleg.) Já, rödd hæstv. utanrrh. er að vísu lítil. En það þyrfti nú ekki endilega að breyta innihaldi ræðunnar, eða hvað, þó að hún sé flutt á lágværum nótum?

Herra forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að rifja aðeins upp hver aðdragandi þessa máls er. Hver er aðdragandinn? Hann er sá að snemma á níunda áratugnum fara nokkur ríki á meginlandi Evrópu, Benelúxlöndin og nokkur fleiri ríki, að ræða sín í milli um það að fella niður í áföngum það landamæraeftirlit sem að nafninu til hafði þá verið haldið þar uppi um árabil. Þannig byrjar þetta nú. Það er auðvitað fullkomlega eðlilegur og skiljanlegur hlutur að þessi lönd, eins og Benelúxlöndin, sem meira og minna bjuggu við sameiginlegan vinnumarkað o.s.frv. og þar sem landamæraeftirlitið var orðið mjög lítið, vildu ganga frá því máli. Þannig fer þessi snjóbolti af stað. Síðan bætast fleiri í hópinn. Gefin er út sérstök yfirlýsing 1990, Schengen-samkomulagið er undirritað og kennt við staðinn og síðan kemur samningurinn til framkvæmda 1995 og þá eru tíu ríki orðin þátttakendur. En þetta er algjörlega sjálfstæður samningur meginlandsríkjanna sem þarna fer af stað. Og það er ekki fyrr en það verður ofan á að fella hann inn í Evrópusambandsréttinn með Amsterdam-samningnum á árinu 1997 sem hann kemur í það samhengi sem nú ber raun vitni.

Herra forseti. Þetta held ég að menn þurfi að hafa í huga þegar þeir ræða síðan spurninguna um tengsl ríkja eins og Íslands, Noregs eða þess vegna Bretlands sem ekki hefur ákveðið að ganga þarna inn, við þetta samkomulag sem í grunninn er hugsað upp af meginlandsþjóðunum og sniðið að þeim aðstæðum sem þar ríkja, og er auðvitað mjög skiljanlegt í því ljósi.

Síðan kemur að því, herra forseti, í öðru lagi að hvað sem menn segja um kosti eða galla þess að gerast aðilar að þessu samstarfi með einhverjum hætti, þá er þetta orðið að innra máli Evrópusambandsins. Það tengist þar af leiðandi spurningunni um það hvernig menn hugsa tengsl sín við Evrópusambandið almennt. Það er ekki hægt að aðskilja þetta mál spurningunni um það hvernig Ísland hyggst á komandi árum og í almennu samhengi búa um sín samskipti við þetta mál. Á það að verða lausnin í öllum tilvikum að við tökum þetta upp svona eiginlega aftan frá, ef svo má að orði komast, með einhverri sérkennilegri aukaaðild að þeim fyrirbærum sem þarna eru á ferðinni eða hugsa menn sér að ganga einhvern veginn öðruvísi frá þessu?

Herra forseti. Þá er líka dálítið sérkennilegt að heyra, þar á meðal hæstv. dómsmrh., ræða um þetta eins og að menn séu að finna hér upp hjólið hvað varðar samstarf lögregluyfirvalda í Evrópulöndum eða þess vegna í heiminum. Hæstv. ráðherra mærði þetta mjög í fyrirframframsöguræðu sinni fyrir þeim málum sem undir hæstv. dómsmrh. heyra.

En það sem er að gerast í aðalatriðum er að slíkt samstarf löggæsluyfirvalda er að flytjast frá Interpol til Europol. Þetta er liður í þeirri breytingu að búa til sambandsríki í Evrópu sem er að taka upp gjaldmiðil, sameiginlega löggæslu, sameiginlega varnarstefnu og allt sem þarna er á ferðinni. Mér finnst að menn séu að rugla hérna saman algjörlega tveimur hlutum, þ.e. því hvort löggæsluyfirvöld eiga með sér samstarf, sem þau hafa gert í gegnum alþjóðalögregluna Interpol, eða hvort við eigum að færa slíkt samstarf inn í Evrópulögregluna sem þarna er að verða til sem hluti af stofnunum Evrópusambandsins í raun og veru.

[23:00]

Mikið hefur verið gert út á norræna vegabréfasambandið í þessu máli og ekkert lítið. Ég hef áður komið inn á það að mér finnst menn hafa farið aftan að mönnum í framhaldi af yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlandanna í Reykjavík í febrúar 1995 þegar menn gáfu út drengaskaparyfirlýsingu um að það yrði einn fyrir alla og allir fyrir einn. Hún var skilin og túlkuð þá af öllum sem slík að öll Norðurlöndin væru tilbúin til þess að standa utan við samkomulagið alveg eins og að fara inn í það ef lausnin fæli það í sér. Það hélt auðvitað ekki lengi eins og kunnugt er.

En hvað felur þetta svo í sér, herra forseti? Jú, þetta felur í sér afnám innra landamæraeftirlits á öllu þessu stóra samningssvæði en hert ytra eftirlit. Þetta er hluti af þeirri blokkarmyndun í raun og veru sem Evrópusambandið í mjög miklum mæli byggir á, að vísu gjarnan í nafni frjálsrar samkeppni, frelsis, ferðafrelsis og guð má vita hvað, en í reynd er það það sem hangir á spýtunni. Hugsunin er sú að fella niður allt landamæraeftirlit innan svæðisins en herða það á ytri landamærunum. Og Ísland á að verða ytri landamæri þessa stóra svæðis, t.d. til vesturs, með þessum breytingum.

Þetta þýðir líka að þau ríki sem þó hafa enn þá rétt til að halda uppi tollaeftirliti innan svæðisins, eins og Ísland og Noregur, geta ekki lengur tengt það saman við vegabréfaeftirlit vegna þess að það verður fellt niður. Þetta þýðir einnig mikla söfnun persónuupplýsinga sem að hluta til verða geymdar í miðlægum gagnagrunni í Strassborg.

Herra forseti. Ég hlýt að segja það hér að ég tel að afar illa hafi verið staðið að undirbúningi íslenskra stjórnvalda undir þetta mál. Hér hefur verið flutt á Alþingi Íslendinga endurtekið þáltill. um úttekt á áhrifum Schengen-aðildar, ekki síst hvað varðaði stöðu Íslands til að halda uppi vörnum gegn fíkniefnum. Meiri hlutinn á Alþingi hefur komið í veg fyrir að slík úttekt fengi að fara fram og hefur þó verið tekið undir það, m.a. af tollgæslu- og löggæsluyfirvöldum eða háttsettum mönnum úr þeim röðum, að þörf væri á slíkri úttekt. Og standa menn nú ekki svolítið berskjaldaðir rétt fyrir aldamótin eftir að hafa haft nógan tíma til að gera slíka úttekt frá því að slík tillaga var fyrst flutt, m.a. vegna þess hvernig málið hefur tafist? Hefði ekki verið skynsamlegt að hér hefði verið í gangi vandaður undirbúningur með aðild allra helstu framkvæmdaraðila málsins á grundvelli ályktunar frá Alþingi sem hefði sett málið í farveg um að gera slíka úttekt? Ég gagnrýni það að slíkt hafi ekki gerst og tillaga um það hefur ekki fengist afgreidd jafnvel þó í umsögnum um hana hafi falist meðmæli með því frá ýmsum aðilum.

Herra forseti. Sérkennilegastur finnst mér þó sá mærðaráróður sem haldið er uppi um þetta mál í sambandi við það sem lið í vörnum gegn alþjóðlegum glæpum og fíkniefnasmygli, þegar fyrir liggur, a.m.k. alls staðar annars staðar en á Íslandi, að helstu áhyggjur manna í sambandi við þetta mál eru bundnar alveg nákvæmlega við þetta. Löggæsluyfirvöld í Noregi, Svíþjóð, svo ekki sé nú minnst á Frakka sem drógu það í lengstu lög, eins lengi og þeir gátu, með vísan til neyðarréttarákvæða Evrópusamningsins, að fullgilda þetta fyrir sitt leyti. Og hvers vegna? Vegna þess að þeir hafa miklar áhyggjur af því, eins og tollgæslu- og löggæsluyfirvöld mjög víða, að eiturlyfin muni flæða yfir Evrópu sem aldrei fyrr vegna þess að þær girðingar sem þó hafa verið fólgnar í landamæraeftirlitinu innan svæðisins hverfa. Það efni sem einu sinni kemst inn á svæðið á greiða leið um alla Evrópu og innan alls svæðisins eftir að það er einu sinni komið þangað. Og það efni sem á uppruna sinn innan svæðisins, eins og heróín framleitt á Ítalíu, er þar með komið inn fyrir þessar varnir. Það vita allir að varnirnar á sunnanverðu svæðinu og kannski að einhverju leyti á austanverðu svæðinu í framtíðinni eru mjög veikar og þar grasserar smyglið sem aldrei fyrr.

Geta menn virkilega komið hér og talað eins og þeir hafi ekki hugmynd um að slíkar áhyggjur séu uppi? Er það sæmandi hæstv. dómsmrh. að láta eins og þetta mál sé 100% pottþétt og það fyrirfinnist engin rök og engar áhyggjur um að þarna séu minnstu efasemdir uppi? Það finnst mér satt best að segja ekki mjög balanseraður málflutningur, herra forseti.

Að lokum, herra forseti, er rétt að muna eftir því að þetta er ekki alveg ókeypis. Gullið og grænu skógarnir sem hæstv. dómsmrh. og að einhverju leyti hæstv. utanrrh. sáu m.a. í stóraukinni ferðaþjónustu --- sem þeir hafa ekki áttað sig á í Bretlandi, þeir ætla greinilega að leggja sína ferðaþjónustu í rúst með því að vera ekki aðilar að Schengen ef marka má þennan málflutning --- kostar nú líka sitt. Ljóst er að það mun kosta mikið mannahald. Það kostar mikið í húsnæði og rekstri fyrir land eins og Ísland, sem hefur talsverða umferð í gegnum landið til viðbótar sinni eigin umferð, að taka þetta allt á sig og sér þó ekki að mínu mati fyrir endann á því. Búið er að ráða 10--15 viðbótartollverði í Keflavík og ljóst er að byggingarkostnaður við stækkun flugstöðvarinnar verður til muna meiri en hann hefði þurft að vera vegna þessa máls, þó hann vissulega hefði orðið einhver vegna nauðsynlegrar stækkunar. Ég vil þó taka fram að kostnaðurinn í þessu efni, þó að hann kunni að reynast drjúgur, er ekki aðalatriðið í mínum huga. Langafdrifaríkast er að mínu mati hvort áhyggjur manna hvað varðar fíkniefni og glæpaflæðið um álfuna koma til með að reynast á rökum reistar. Slíkar áhyggjur hafa verið settar fram og eru býsna vel rökstuddar, því miður að ég tel, af hálfu margra.

Hliðarspor í þessu er hin sérstaka staða sem uppi er í flugsamgöngum Íslendinga, þ.e. að hér er byggt á svonefndri skiptistöð eða höfn, eins og það heitir víst á vondu flugmáli, og hér skiptir mikill fjöldi farþega um flugvélar og fer yfir landamæri á mjög skömmum tíma, einu sinni til tvisvar á sólarhring. Allir vita sem til þekkja að afar lítið má út af bera og afar litlar tafir mega verða til að það kerfi fari í klessu, eins og sannast oft og tíðum ef smávægilegar tafir verða vegna veðurs eða annarra slíkra hluta. Þegar hundruðir farþega, jafnvel þúsundir, þurfa á u.þ.b. þremur korterum að fara yfir þessi landamæri, koma yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins og skipta síðan um flugvél í framhaldinu, þá má ekki mikið út af bera og ekki miklar tafir verða. Menn munu sjálfsagt reyna að leysa það með viðbótarmannafla og viðbótarhúsnæði og það mun þá kosta sitt. Þannig að það er síður en svo á borði að gullið og grænu skógarnir séu ókeypis, að menn séu að fá hér allt fyrir ekkert. (VS: Bara heimsendir.) Það eru nú orð hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur að þetta sé heimsendir. Eða heyrði einhver ræðumanninn taka þannig til orða? Nei, en þetta er ofarlega í huga einu sinni tilvonandi ráðherra, hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur. (Gripið fram í: Ekkert einu sinni.) Fyrirgefðu, ég biðst afsökunar, þetta var mismæli.

Ég sagði ekki að þetta væri heimsendir. Ég hef verið að reyna að tala hérna málefnalega fyrir þeim sjónarmiðum sem ég hef í þessu máli, það fer greinilega í taugarnar á hv. þm. og það verður bara að hafa það. Ég get bókstaflega ekkert að því gert þó að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir eigi bágt þessa daga og þoli illa að heyra málflutning sem er henni ekki að skapi.