Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 23:15:19 (2492)

1999-12-07 23:15:19# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[23:15]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hæstv. utanrrh. ætti nú að fara varlega í að gera út á ríkisstjórn Kjells Magne Bondevik og þá sérstöku stöðu sem uppi var og er í norskum stjórnmálum. Sú stjórn tók þennan samning í arf, þ.e. eldri útgáfu hans og valdi þann kost, að vísu eftir miklar innantökur eins og ég þykist vita að hæstv. utanrrh. sé kunnugt frá flokksbræðrum sínum í Noregi. Af tvennu illu var valið að baksast áfram með þennan samning og það hefur verið dálítið aðhlátursefni í Noregi og í norskum stjórnmálum, sú heldur vandræðalega staða sem upp hefur komið hjá þeim miðflokksmönnum, kristilegum og hvað þeir nú heita þar, sálufélagar hæstv. utanrrh. í norskum stjórnmálum.

Yfirlýsing forsætisráðherranna segir ósköp einfaldlega samkvæmt orðanna hljóðan að eitt skuli yfir öll Norðurlöndin ganga, að þau skuli finna sameiginlega lausn á málinu. Ég hef bent á að það var þannig túlkað af mönnum eftir þá yfirlýsingu að niðurstaðan gæti orðið á hvorn veginn sem væri. Þegar frá líður leggja menn af þá túlkun og segja: Nú er orðið ljóst að Danmörk, Svíþjóð og Finnland fara inn og þar með snýst þetta um lausn fyrir Ísland og Noreg. Í byrjun var látið í veðri vaka að niðurstaðan gæti orðið á hvorn veginn sem væri.

Mér er ljóst að það er ekki verið að leggja niður heimildir til almennrar löggæslu, þar á meðal að leita í bílum eða eitthvað slíkt innan Schengen-svæðisins. Mér er það ljóst, hæstv. utanrrh. Var einhver vafi á að svo væri? (Utanrrh.: Já.) Já, það er ekki bara röddin heldur heyrnin sem eitthvað er döpur hjá hæstv. utanrrh. í kvöld. Hitt er ljóst að það verður ekki heimilt að gera stikkprufur á landamærum eins og norræna vegabréfasambandið leyfði. Það verður með öllu óheimilt að bera saman upplýsingar um persónur og þann varning sem er á ferðinni. Þetta er mikil breyting sem mjög margir hafa miklar áhyggjur af í þessu sambandi.