Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 23:17:47 (2493)

1999-12-07 23:17:47# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[23:17]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það hvarflar ekki að mér að undrast afstöðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar til þessa máls þar sem um er að ræða aukið frjálsræði og nánara samstarf við önnur ríki. En ég undrast hins vegar lýsingar hans á ræðu minni hér áðan sem hann nefndi ,,fyrirframáróðursstríð``.

Ég vil ítreka það sem ég sagði hér áðan. Ísland hefur farið með formennsku í samsettu nefndinni undanfarna mánuði og ég hef fyrir hönd Íslands stýrt tveimur fundum og efni þeirra hefur verið talið fréttnæmt. (Gripið fram í.) Og varla telst það gagnrýnisvert, hv. þm. Efni Schengen-samstarfsins vekur athygli á þörfinni fyrir aukið alþjóðlegt samstarf. Breyttar aðstæður í heiminum í dag, hrun Sovétríkjanna og fleiri landfræðilegar og þjóðfélagslegar breytingar hafa einmitt opnað nýjar leiðir fyrir fíkniefnasmygl og alþjóðleg glæpasamtök sem teygja anga sína hingað til lands. Við Íslendingar höfum svo sannarlega ekki farið varhluta af þessari þróun eins og öllum er kunnugt og vafalaust hv. þm. líka.

Þess vegna tel ég það skyldu okkar að gera allt sem í okkar valdi stendur til að efla baráttuna gegn þessum afbrotum. Ég trúi því að Schengen-samstarfið sé mikilvægt í því sambandi.