Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 23:19:35 (2494)

1999-12-07 23:19:35# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[23:19]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég stend við orð mín. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi verið með áróður fyrir Schengen-samstarfinu í fjölmiðlum hér undanfarna daga og hafi gengið langt í þeim efnum. Það kom meira að segja furðufrétt um að Schengen-samstarfinu væri að þakka að á Spáni uppgötvuðust fíkniefni á leið til Íslands. Ég veit nú ekki hvorum misskilningurinn er að kenna, hæstv. ráðherra eða fréttamanninum. Þetta var svo dregið til baka sem betur fer. Þetta er auðvitað ekki fréttaflutningur sem mikill sómi er að.

Ég endurtek það að mér hefur fundist hæstv. ráðherra ákaflega einhliða, ræða bara jákvæðu hliðina á þessum málum, láta eins og þar beri engan skugga á og að engar áhyggjur þurfi að hafa.

Í umsögn til allshn. Alþingis sagði lögreglustjórinn í Reykjavík 23. nóv. 1988 m.a. um áhrif Schengen-aðildar:

,,Með því [þ.e. Schengen-samkomulaginu] verður tollaeftirliti ekki haldið uppi með sama hætti og áður, m.a. leit að fíkniefnum. Eftirlit með fíkniefnanotkun og dreifingu fíkniefna er víða slakt innan svæðisins og sums staðar eru uppi allt önnur viðhorf til fíkniefna og baráttunnar gegn þeim en hérlendis og annars staðar á Norðurlöndum. Í sex af aðildarríkjum Schengen hafa t.d. verið felldar niður refsingar gegn því að hafa undir höndum umtalsvert magn fíkniefna til eigin nota. Reynslan sýnir að takmörkuð landamæravarsla hefur slæm áhrif t.d. í Svíþjóð og Danmörku að mati hlutaðeigandi aðila.``

Svo mælti lögreglustjórinn í Reykjavík í umsögn til þingnefndar. Síðan kemur hæstv. dómsmrh. hér og lætur eins og svona sjónarmið séu ekki til. Þarna þurfi ekki að hafa áhyggjur af. Ég legg til að hæstv. ráðherra kalli lögreglustjórann á teppið og skammi hann fyrir þessa gömlu umsögn. Það er í tísku núna að straffa menn ef þeir leyfa sér að hafa skoðanir sem ganga gegn háyfirvöldunum, eins og við höfum orðið vitni að. Mér fyndist það í stíl að hæstv. ráðherra tæki lögreglustjórann á beinið eins og sagt var í Menntaskólanum á Akureyri.