Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 23:23:20 (2496)

1999-12-07 23:23:20# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[23:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. dómsmrh. og um það getum við orðið sammála, að ég eyddi ekki miklum tíma í að gylla þennan samning. Enda eru nógu margir aðrir búnir að því. Ég taldi þörf á því frekar en hitt að fram kæmu önnur sjónarmið sem ég tel að eigi rétt á sér inn í umræðunni. Ætli það sé nú ekki heldur til bóta að vitnað sé til þess sem ábyrgir og málsmetandi menn, bæði hér heima og erlendis, hafa sett fram í þessum efnum en hæstv. ráðherrum tókst að þegja vandlega yfir í framsögum sínum og létu eins og allt væri slétt og fellt og bæri hvergi nokkurs staðar skugga á?

Auðvitað hefur mjög margt áhrif í glímunni við fíkniefni og hvernig barist verði gegn flæði þeirra um lönd og álfur, skipulagðri glæpastarfsemi o.s.frv. En menn hljóta náttúrlega að þurfa að færa fram býsna sterk rök fyrir því að að breyttu breytanda geti verið til bóta að draga úr þeim hindrunum, því eftirliti sem þó hefur verið haldið uppi og hefur stoppað heilmikið af þessari vöru. Landamæraeftirlit og eftirlit með fólki hefur sannarlega komið í veg fyrir smygl. Gleymum því ekki að eiturlyfjum er m.a. smyglað innan í fólki þannig að það að hafa eftirlit með fólkinu en ekki bara vörunni skiptir miklu máli, að geta fylgst með ferðum þeirra einstaklinga sem komnir eru á skrá.

Hvernig uppgötvast obbinn af þeim smyglvarningi sem hér finnst? Það er með því að lögreglan þekkir til, fylgist með tilteknu fólki og hefur ábendingar þar um. M.a. þetta eftirlit hverfur. Maður sem kominn er inn á Schengen-svæðið er innan þess og ekki hægt að halda uppi persónueftirliti á neinum landamærum. Heimildir til þess eru alfarið afnumdar. Það er ekki einu sinni hægt að gera stikkprufur nema að fá til þess sérstaka heimild á grundvelli neyðarréttar eða allsherjarreglu. Það er einasta ákvæðið þar um.

Ég held, herra forseti, að þegar við lítum til stærðar svæðisins frá suðri til norðurs þá sjáum við að verið er að leggja niður landamæri milli svæða þar sem ólík viðhorf ríkja.