Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 23:40:56 (2501)

1999-12-07 23:40:56# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[23:40]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst nú ótrúlega langt seilst hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að reyna að snúa út úr með því að segja að þar sem ég viðri efasemdir um kostnað sem fellur til vegna þessa fyrirhugaða Schengen-samstarfs þá megi draga þá ályktun að ég hafi líka efasemdir um að við eigum yfir höfuð að taka þátt í samfélagi þjóðanna. Ekkert í máli mínu gaf hv. þm. tilefni til að draga þessa ályktun. Þvert á móti talaði ég mjög ákveðið fyrir því í upphafi míns máls að við ættum sem nánast samstarf við Evrópuþjóðirnar og ég sá mikla kosti við það pólitíska samstarf sem hefur tekist á milli Evrópuþjóðanna, en ég var alveg eindreginn stuðningsmaður þess allt frá upphafi.

Ég vakti hins vegar athygli á því að þetta samstarf Evrópuþjóðanna væri öðru marki brennt, það einkenndist af því að af þessu hlytist kostnaður, bæði fyrir ríkissjóð og líka aðra aðila að málinu, svo sem atvinnulífið og þá sem notuðu flughafnirnar og nýttu sér ferðaþjónustuna í heiminum. Það var einfaldlega þetta sem ég dró hérna fram og ég held að við þurfum að fara miklu nánar ofan í vegna þess að í þeim gögnum sem liggja fyrir og við erum að ræða á grundvelli þessarar tillögu kemur þetta ekki nægilega skýrt fram. Ég held að það þurfi að kalla mjög eftir t.d. viðhorfi þeirra sem starfa í ferðaþjónustunni, t.d. hvaða augum Flugleiðir líti þetta mál. Það væri líka mjög fróðlegt fyrir okkur að vita hvaða augum rekstraraðilar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar líta þetta mál. Það væri mjög fróðlegt að heyra sjónarmið þeirra sem hafa fjárfest gífurlega í verslunarplássi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, þ.e. hvernig það horfi við þeim að vera skyndilega í þeirri stöðu að þurfa að setja upp verslunarpláss á tvöfalt fleiri stöðum en þeir gerðu ráð fyrir í upphafi.

Allt þetta þurfum við auðvitað að fara ofan í. Þetta gefur ekkert tilefni til að segja að ég hafi efasemdir um það á fjárhagslegum grundvelli hvort við eigum að taka þátt í samstarfi þjóðanna, Sameinuðu þjóðanna eða sendiráðum úti um allan heim. Það er fráleitt að álykta þannig.