1999-12-08 00:01:01# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, KolH
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[24:01]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég er í hópi efasemdarmanna í þessum sal varðandi aðild okkar að Schengen. Mig langar að hefja ræðu mína á því að rifja upp þáltill. sem lögð var fyrir síðasta þing og þingið áður líka. Þar lagði hv. þáv. þm. Hjörleifur Guttormsson til að Alþingi ályktaði að fela dómsmrh. að beita sér fyrir því að gera vandaða úttekt á líklegum áhrifum Schengen-aðildar á ólöglegan innflutning fíkniefna til landsins í samvinnu við önnur ráðuneyti og samtök sem berjast gegn fíkniefnum. Samkvæmt þessari þáltill., herra forseti, var óskað eftir því að Alþingi yrði gefin skýrsla um málið.

Ég verð að segja að mikið stæðum við nú betur að vígi í þessari umræðu ef þessari þáltill. hefði verið sinnt og skýrslan lægi hér fyrir sem grundvöllur í málflutningi okkar. Hæstv. utanrrh. lagði á það áherslu í máli sínu áðan að Norðmenn hefðu skipt um skoðun, að orðið hefðu sinnaskipti í röðum stjórnmálamanna í Noregi. Þeir hefðu í eina tíð barist gegn aðild að Schengen en hefðu nú snúist. Hvers vegna? Eins og hæstv. utanrrh. sagði er það vegna þess að þeir hafi verið upplýstir, vegna þess að farið hefur fram upplýst umræða um málið í Noregi. Upplýsta umræðu um þetta mál skortir, herra forseti, hér á Íslandi. Við eigum eftir að ræða við almenning, við fagaðila, stofnanir og önnur ráðuneyti. Þess vegna segi ég að það væri vel ef að hér lægi fyrir skýrsla með faglegri úttekt á mögulegum áhrifum af aðild okkar að Schengen-samkomulaginu.

Hér hefur verið vitnað í lögreglustjóra. Mig langar að vitna í tollvörð, fyrrv. deildarstjóra, Kristján Pétursson, sem skrifaði í Morgunblaðið 18. jan. 1997 um innflutning á fíkniefnum til landsins, með leyfi forseta. Í greininni segir Kristján Pétursson:

,,Í langflestum tilvikum þegar fíkniefni finnast hjá farþegum við komu til landsins liggur að baki mikil og oft flókin upplýsingaöflun tollgæslu og fíkniefnadeildar lögreglunnar. Svo hægt sé að hafa hendur í hári grunsamlegra komufarþega, innlendra sem erlendra, verður að skoða skilríki þeirra, þar sem oftast er um að ræða ókunna aðila (burðardýr). Eftir að vegabréfaskoðun Schengen-farþega verður lögð af, er ekki lengur fyrir hendi nein aðstaða til slíks eftirlits í flugstöðinni.``

Herra forseti. Það verður ekki lengur heimild fyrir því að gera stikkprufur af þessu tagi. Jafnvel þó að upplýsingar berist sem gætu gefið ástæðu til að óska eftir vegabréfaskoðun í einhverjum tilfellum þá væri það ekki heimilt. Mér sýnist, herra forseti, að hér megi með réttu hafa áhyggjur. Þær eru fullkomlega á rökum reistar og við höfum stutt áhyggjur okkar með tilvitnunum, bæði í lögreglu og tollgæslu. Ég held að ástæða sé til að hafa áhyggjur því eins og fram hefur komið í umræðunni núna er ljóst að það á ekki að fylgjast með persónum, heldur varningi. Með þeim aðferðum sem fíkniefnasmyglarar hafa beitt síðustu árin í að smygla inn fíkniefnum milli landa hefur oft verið harla erfitt að greina á milli persónunnar og varningsins. Hér eru sannarlega ástæður til að hafa áhyggjur.

Einnig er ástæða til að athuga að við yrðum útvörður, landamærastöð fyrir Vesturheim, Ísland með sínar 30 hafnir og 17 flughafnir sem þyrftu í raun og veru allar að gera einhverjar ráðstafanir. Erlend skip koma víðar að landinu en í Reykjavík. Eitthvað kemur það til með að gera að hafa hafnir og flughafnir í stakk búnar að taka við þessu hlutverki. Ég verð því að segja, herra forseti, að ég deili áhyggjum hv. 1. þm. Vestf. af kostnaðinum í þessu máli. Í því sambandi má geta þess að fyrst er farið var að ræða um þetta mál á hv. Alþingi þá var talað um kostnaðaráætlun vegna breytinga á Leifsstöð upp á 1,1 milljarð. Nú eru þær kostnaðaráætlanir komnar í 3,5--4 milljarða. Á tveimur árum hefur kostnaðaráætlunin bara varðandi Leifsstöð hækkað úr 1,1 milljarði í 3,5--4 milljarða.

Mikið er talað um þægindin af því að geta ferðast vegabréfalaust á milli landa. Ég sé ekki, herra forseti, að tæknin og framfarir í ferðaþjónustu nú til dags komi til með að búa til svo langar biðraðir fyrir segjum þær 10 millj. Bandaríkjamanna sem ferðast til Evrópu á hverju einasta ári. Það er ótrúlegur fjöldi Bandaríkjamanna sem ferðast og Japanar. Ekki yrðu þeir innan Schengen. Stæðu þá allir Bandaríkjamenn og Japanar í biðröðum á öllum flughöfnum heimsins á meðan að Schengen-farþegar fengju að fljúga á rósrauðu Schengen-skýi í gegn? Auðvitað ekki, herra forseti. Auðvitað eru framfarir í þessu eins og öðru. Ég geri ekki svo mikið úr þessum þægindum.

Ég hef meiri áhyggjur af því öryggi sem ógnað er með því að innleiða þetta samkomulag um alla álfuna. Varnirnar í austanverðri og sunnanverðri Evrópu eru ákaflega slælegar. Nú vofir yfir stækkun Evrópusambandsins. Hvernig ætlum við t.d. að fara að þegar Tyrkland verður orðið aðili að Evrópusambandinu? Af því sprettur ótti við innflutning, hugsa ég. Við sjáum það, herra forseti, að hér eru margar hættur sem sannarlega er þörf á að vara við og fara ofan í saumana á. Ég ítreka að mikið væri gott ef Alþingi hefði verið það viturt fyrir ári síðan eða tveimur að láta gera skýrslu um möguleg áhrif Schengen-samkomulagsins.

Í lok ræðu minnar langar mig að benda á, herra forseti, að hæstv. dómsmrh. hélt því fram í gær í umræðum utan dagskrár að stóraukin löggæsla hefði aukið vanda fíkniefnaneytenda og þar af leiðandi væru fíkniefnaafbrot svo tíð núorðið. Hún sagði þau vera tíðari vegna þess að löggæslan væri svo stóraukin. Herra forseti. Ég efast um að þetta sé alveg rétt. Ég heyri úr röðum lögreglumanna áhyggjur af því að enn skorti fé til löggæslu og þeir geti ekki einu sinni annast eðlilega löggæslu í miðbæ Reykjavíkur um helgar.