1999-12-08 00:09:26# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[24:09]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Út af orðum hv. þm. vil ég ítreka að í svörum mínum við fsp. í gær taldi ég að það gæti verið hugsanleg skýring á málinu, að þegar t.d. ránum fjölgar og alvarlegum ofbeldisverkum þá gæti hugsanlega verið orsakasamband þar á milli. Ég fullyrti ekkert um þau efni.

Ég er sammála hv. þm. um að fram þurfi að fara upplýst umræða um Schengen-samstarfið. Ég teldi það fagnaðarefni að rætt yrði vel og vandlega um málið á hinu háa Alþingi. Það er nauðsynlegt að fræða einnig almenning um þetta mál. Ég treysti því að þær þingnefndir sem fá þessi mál til meðferðar muni skoða það vandlega.

Mig langar til þess að koma að því varðandi persónueftirlitið að nýjum starfsaðferðum yrði beitt við það eftirlit. Það mun að sjálfsögðu kalla á að lögreglumenn hljóti fræðslu og þjálfun um Schengen-reglur og að aðstaða, tækjabúnaður og annar aðbúnaður til persónueftirlits verði fullnægjandi á öllum landamærastöðvum. Langstærstur hluti þeirra einstaklinga sem samkvæmt þessu mun þurfa að sæta persónulegu eftirliti við brottför og komu fer hins vegar um Keflavíkurflugvöll.

Stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, til þess að mæta aukinni umferð farþega um stöðina, tengist þessu máli að sjálfsögðu en hins vegar held ég að öllum sé ljóst að stækka þarf flugstöðina og flugvöllinn vegna stóraukinnar umferðar. Ég vil líka taka það fram að þátttaka í Schengen hefur engin áhrif á öryggiskröfur á flugvöllum. Einstaklingar geta þurft að sýna persónuskilríki. Eftirlit með einstaklingum sem fara frá Íslandi til ríkja innan Schengen er viðhaldið. Þar verður krafist vegabréfs.