1999-12-08 00:11:41# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[24:11]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að leggja hæstv. dómsmrh. orð í munn varðandi umræðurnar í gær. Ég biðst afsökunar hafi ég tekið of djúpt í árinni.

Mig langar til að ítreka, í sambandi við þessi fíkniefnamál, það sem ég hef mestar áhyggjur af varðandi hið afnumda eftirlit með persónum, þ.e. hversu gífurlega mikið við þurfum að auka allt okkar eftirlit. Ég þekki það af eigin raun hvernig tollverðir úti á landi hafa ekki getað sinnt skyldum sínum hingað til.

Ég sé ekki að íslenska ríkisvaldið hafi sýnt slíka ofrausn í að sjá lögreglunni fyrir því fjármagni sem lögreglan telur sig þurfa til að halda uppi löggæslu og tollgæslunni, fyrir því fjármagni sem hún hefur talið sig þurfa í málefni tollgæslunnar. Ég sé ekki að við komum til að standa að því með rausn á næstunni úr því okkur hefur ekki tekist betur til upp á síðkastið. Ég minni enn á miðbæ Reykjavíkur sem er nánast löggæslulaus heilu og hálfu næturnar. Þeir tveir, þrír eða fjórir, eða hvað þeir eru margir lögregluþjónarnir, vilja frekar mæla hraða á Kleppsvegi en að hætta sér inn í skrílslætin í miðbænum. Það þyrfti að auka gæslu, bæði í borginni og um allt land.