1999-12-08 00:13:27# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[24:13]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég deili vissulega áhyggjum með hv. þm. af aukinn tíðni afbrota í íslensku þjóðfélagi, ekki síst vegna fíkniefnavandans. Það hefur verið lögð áhersla á það af hálfu ríkisstjórnarinnar að styðja vel við bakið á íslensku lögreglunni. Það mun gert áfram, ég get fullvissað hv. þm. um það þó auðvitað megi alltaf betur gera. Áherslan á eflingu löggæslunnar verður aukin og það mál tengist einmitt, herra forseti, Schengen-samstarfinu.

Það er ljóst að fjölga verður þeim sem starfa að persónueftirliti, t.d. við komu og brottför á Keflavíkurflugvelli. Það þarf að styrkja nauðsynlegt persónueftirlit þar sem smygl á fólki til Íslands, jafnt sem annarra Evrópuríkja, er að verða ábatasamur iðnaður alþjóðlegra glæpasamtaka. Sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli vinnur nú að útfærslu á því hvernig staðið verði að auknu eftirliti og hvar hagræða megi í rekstri til að takmarka þá viðbót á mannafla sem breytingarnar munu krefjast. Ljóst er að auka verður í mannafla til þess að takast á við aukið eftirlit. Ég held að það muni hjálpa til í baráttu okkar gegn fíkniefnavandanum.