1999-12-08 00:15:03# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[24:15]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað deilum við þessum áhyggjum varðandi löggæsluna og hversu vanmegnug hún virðist oft vera í þessu samfélagi sem stöðugt leitar meira í átt til glæpasamfélags, vil ég segja. Maður fylgist ekki með því hversu hratt þessar breytingar eiga sér stað. Og þegar maður allt í einu vaknar upp þá er það eins og af vondum draumi því það hafa átt sér stað svo skelfilegar breytingar á svo skelfilega skömmum tíma. Og við getum ekki annað en horfst í augu við það að við erum orðin hluti af þessu harða samfélagi sem maður vonaði fyrir kannski tveimur eða þremur árum að okkur tækist að standa gegn. Ég held því að höfuðmáli skipti að við gerum okkur fulla grein fyrir því að hér getum við verið að bjóða hættunni heim og við hljótum að verða að hafa þéttriðið öryggisnet og standa, eins og hæstv. dómsmrh. segir, þétt við bakið á allri okkar löggæslu og öryggisgæslu. Auðvitað verður að sinna þessu máli af þvílíkum dug og það kemur til með að kosta formúu. Það kemur til með að kosta mikinn mannafla, mjög mikinn. Ef við ætlum að fara út í þetta samstarf og standa þar vel að málum, þá á það eftir að kosta okkur drjúgan skilding og við verðum að gera okkur grein fyrir því núna. Við verðum að sjá fyrir hversu langt þetta á eftir að leiða okkur í útgjöldum og hversu langt þetta á eftir að leiða okkur í mannaflaþörf. Alla þessa þætti þarf að greina til að þessi umræða geti farið fram út í samfélaginu þannig að við getum virkilega gert upp hug okkar og fundið og tekið þá bestu ákvörðun sem hugsast getur.