1999-12-08 00:17:54# 125. lþ. 37.6 fundur 236. mál: #A Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi# frv. 16/2000, 237. mál: #A þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu# (breyting ýmissa laga) frv. 15/2000, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[24:17]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstvirtur forseti. Ég mæli hér fyrir tveimur frv., annars vegar frv. til laga um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi og hins vegar frv. til laga um breyting á ýmsum lögum vegna þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Mun ég byrja á að ræða hér efni fyrra frv. sérstaklega.

Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði nauðsynleg lagaákvæði vegna fyrirhugaðrar þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu og er frumvarpið eitt af fleiri frumvörpum sem flutt verða á Alþingi af þessu tilefni.

Kjarninn í Schengen-samstarfinu má segja að sé tvíþættur og felist annars vegar í að tryggja frjálsa för fólks um innri landamæri samstarfsríkjanna og hins vegar að efla baráttu ríkjanna gegn alþjóðlegri brotastarfsemi, ekki síst ólöglegum flutningi fíkniefna. Markmiðið með starfrækslu Schengen-upplýsingakerfisins lýtur að síðastnefnda atriðinu og er því ætlað að auka samvinnu lögregluyfirvalda ríkjanna til að koma í veg fyrir og uppræta brotastarfsemi. Tilgangurinn með starfrækslu upplýsingakerfisins er einnig að treysta eftirlit á ytri landamærum ríkjanna.

Einn af mikilvægustu þáttum Schengen-samstarfsins er starfræksla Schengen-upplýsingakerfisins. Með Schengen-upplýsingakerfinu er átt við rafrænt gagnasafn upplýsinga frá þátttökuríkjunum til notkunar á öllu Schengen-svæðinu. Með starfrækslu gagnasafnsins er upplýsingum miðlað á skilvirkan og öruggan hátt milli samstarfsríkjanna. Rekstur gagnasafnsins hófst í mars 1995 og hefur það bætt löggæslu þeirra ríkja sem nú þegar taka þátt í Schengen-samstarfinu og samvinnu þeirra á milli.

Um Schengen-upplýsingakerfið er fjallað í IV. bálki Schengen-samningsins og til glöggvunar er sá hluti samningsins birtur sem fylgiskjal með frv. Schengen-upplýsingakerfið greinist annars vegar í staðbundinn hluta kerfisins sem starfræktur er í hverju þátttökuríkjanna og hins vegar miðlægan hluta þess sem staðsettur er í Strassborg í Frakklandi.

Þetta frv. tekur til íslenska hluta upplýsingakerfisins og eru ákvæði þess um rekstur kerfisins í samræmi við reglur Schengen-samningsins.

Einnig vil ég nefna að frv. hefur að geyma ákvæði um persónuvernd við skráningu og meðferð upplýsinga í gagnasafninu. Það atriði er mjög mikilvægt og ég vil leggja ríka áherslu á að persónuverndar verði í hvívetna gætt við starfrækslu upplýsingakerfisins.

Herra forseti. Ég mun nú gera grein fyrir helstu ákvæðum frv. og meginefni þess.

Í 2. gr. frv. er lagt til að ríkislögreglustjóri reki og beri ábyrgð á upplýsingakerfinu. Gert er ráð fyrir að einungis starfsmenn þess embættis annist skráningu í kerfið og ríkislögreglustjóri leggi mat á hvort skilyrði séu til að skrá upplýsingar í kerfið. Í ákvæðinu er sérstaklega áréttað að þess skuli gætt við skráningu að upplýsingar séu réttar og áreiðanlegar og að fullnægt sé skilyrðum laga fyrir skráningu.

Í 3. gr. frv. er síðan að finna ákvæði um innra eftirlit með upplýsingakerfinu sem ríkislögreglustjóri og sá sem annast tölvuþjónustu á hans vegum skulu annast.

Þá er gert ráð fyrir í 18. gr. frv. að tölvunefnd hafi einnig eftirlit með að upplýsingakerfið sé starfrækt í samræmi við ákvæði frv. og reglur sem gilda um persónuvernd og friðhelgi einkalífs.

Lagt er til í 19. gr. að nánari reglur um innra eftirlit og eftirlit tölvunefndar verði settar með reglugerð.

Í 4.--8. gr. frv. er að finna ákvæði um skráningu í upplýsingakerfið. Samkvæmt þessum greinum eru nákvæmlega tilgreindar þær upplýsingar sem heimilt er að skrá í kerfið. Einnig er gerður sá áskilnaður að skráning upplýsinga sé nauðsynleg með hliðsjón af tilgangi skráningar. Þannig er einungis heimilt að skrá upplýsingar í fyrir fram ákveðnum tilgangi svo sem nánar er rakið í 6.--8. gr. frv.

Í 6. gr. frv. er að finna heimild til að skrá upplýsingar um einstaklinga vegna beiðni um að eftirlýstur maður verði handtekinn og framseldur, þegar meina á útlendingi um landgöngu, vegna leitar að horfnum manni eða þegar taka á mann í gæslu tímabundið vegna eigin öryggis eða annarra. Einnig er lagt til að heimilt verði að skrá upplýsingar um einstaklinga vegna eftirgrennslana um búsetu eða dvalarstað vitnis, sakbornings sem hefur verið ákærður og koma þarf fyrir dóm, eða manns sem birta á dóm fyrir í opinberu máli eða boða til afplánunar refsingar.

Í 7. gr. frv. er að finna heimild til að skrá upplýsingar um einstaklinga og ökutæki í upplýsingakerfið til að fram fari eftirlit með leynd, leit, líkamsleit eða líkamsrannsókn, enda sé fullnægt tilteknum ströngum skilyrðum fyrir slíkri skráningu.

Þá er í 8. gr. frv. að finna heimild til að skrá upplýsingar um hluti sem leitað er í þeim tilgangi að leggja á þá hald eða nota sem sönnunargagn í opinberu máli.

Ég vil vekja á því athygli, virðulegi forseti, að í frv. er gert ráð fyrir að upplýsingar verði ekki skráðar í kerfið nema nægjanlega brýnt tilefni sé til skráningar. Þannig verður að athuga nauðsyn skráningar í hverju tilviki fyrir sig og því verða upplýsingar ekki skráðar sjálfkrafa í kerfið.

Loks vil ég geta þess að skv. 9. gr. frv. verða upplýsingar sem skráðar eru í ákveðnu skyni almennt ekki nýttar í öðrum tilgangi.

Í 10. og 11. gr. frv. er að finna ákvæði um aðgang að upplýsingakerfinu. Samkvæmt 10. gr. er lagt til að lögregla, útlendingaeftirlit og skráningarstofa ökutækja verði beinlínutengd við upplýsingakerfið. Þessi aðgangur sætir þó þeim takmörkunum að hann verði ekki víðtækari en nauðsyn krefur með hliðsjón af þeim verkefnum sem þessi stjórnvöld sinna. Í 11. gr. frv. er einnig að finna heimild til aðgangs að skráðum upplýsingum fyrir tollgæslu, Landhelgisgæsluna og dómsmrn. að því marki sem nauðsynlegt er vegna nánar tilgreindra verkefna þessara stjórnvalda. Þessi aðgangur er frábrugðinn aðgangi skv. 10. gr. þar sem hann er ekki beinn, heldur verður aðgangur aðeins veittur fyrir milligöngu ríkislögreglustjóra sem metur hvort lagaskilyrði séu fyrir hendi til að veita umbeðnar upplýsingar.

Samkvæmt 13. gr. frv. á hver sá sem skráður er í upplýsingakerfið rétt á að fá vitneskju um skráðar upplýsingar um sig í kerfinu. Þessi réttur sætir þó takmörkum ef nauðsynlegt er að halda upplýsingum leyndum til að ná því markmiði sem stefnt er að með skráningu eða vegna hagsmuna annarra. Hér má nefna sem dæmi að þetta ætti væntanlega við ef upplýsingar eru skráðar um mann til að hann verði handtekinn eða framseldur.

Þá er í 14. gr. að finna ákvæði um að ríkislögreglustjóri skuli eftir beiðni eða að eigin frumkvæði sjá til þess að rangar, villandi eða ófullkomnar upplýsingar, eða upplýsingar sem skráðar hafa verið án tilskilinnar heimildar, verði leiðréttar, afmáðar eða við þær aukið.

Í 16. gr. frv. er að finna ákvæði um bótaskyldu ríkissjóðs ef maður hefur orðið fyrir tjóni vegna skráningar eða notkunar á upplýsingum úr upplýsingakerfinu sem andstæð er reglum um kerfið. Einnig skal greiða bætur þótt upplýsingar hafi verið skráðar í öðru ríki, ef þær hafa verið notaðar hér á landi. Eftir atvikum gæti þó íslenska ríkið endurkrafið viðkomandi ríki sem skráð hefur upplýsingar, en gert er ráð fyrir því í 2. mgr. 116. gr. Schengen-samningsins. Lagt er til að bótaábyrgðin verði hlutlæg þannig að bætur verði greiddar án tillits til sakar. En þó er gert ráð fyrir því að fella megi niður bætur eða lækka þær ef tjónþoli hefur stuðlað að því að upplýsingar væru skráðar eða notaðar.

Loks er í 17. gr. frv. að finna ákvæði um hvenær upplýsingar verða afmáðar úr upplýsingakerfinu. Varðandi upplýsingar um einstaklinga er gert ráð fyrir að þær standi ekki lengur en þörf krefur með hliðsjón af tilgangi skráningar og að skráning sé endurmetin, ýmist á eins eða þriggja ára fresti. Þegar upplýsingar eru skráðar um hluti er gert ráð fyrir að þær geti staðið skráðar í þrjú, fimm eða tíu ár, eftir því um hvaða hluti er að ræða.

Herra forseti. Ég mun nú snúa mér að síðara frv. sem felur í sér nauðsynlegar breytingar á lögum til að Ísland geti fullnægt þeim skuldbindingum sem leiðir af þátttöku í samstarfi Schengen-ríkjanna.

Í frv. eru lagðar til breytingar á fimm lagabálkum og mun ég nú gera nánari grein fyrir efni frv. í einstökum atriðum.

Í I. kafla frv. eru lagðar til breytingar á 8. gr. a almennra hegningarlaga, en það ákvæði fjallar um svokölluð neikvæð réttaráhrif refsidóma. Í því felst að maður verður ekki dæmdur eða látinn taka út refsingu oftar en einu sinni fyrir sama verknað. Þetta er þó bundið við að refsidómur hafi verið kveðinn upp í ríki sem er aðili að samningi um alþjóðlegt gildi refsidóma frá 28. maí 1970. Lagt er til að ákvæðinu verði breytt þannig að það taki einnig til ríkja sem taka þátt í Schengen-samstarfinu.

Í II. kafla frv. eru lagðar til breytingar á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984.

Í 2. gr. frv. er lagt til að með samningi við önnur ríki megi ákveða að tiltekin brot skuli ekki talin stjórnmálaafbrot. Þetta er til samræmis við yfirlýsingu sem Ísland og Noregur gáfu við gerð samstarfssamnings við Evrópusambandið frá 18. maí 1999, um að fyrirvara varðandi stjórnmálaafbrot við Evrópusamning um varnir gegn hryðjuverkum yrði ekki beitt gagnvart Schengen-ríkjum.

Í 3. gr. frv. er lagt til að þegar beiðni um framsal berst frá Schengen-ríki gildi lög þess um rof fyrningarfrests á sök eða dæmdri refsingu. Þetta er til samræmis við 62. gr. Schengen-samningsins.

Í 4. gr. frv. er lagt til ákvæðið um samþykki manns fyrir framsali. En þegar samþykki liggur fyrir er gert ráð fyrir einfaldari málsmeðferð.

Í 5. gr. frv. er lögð til rýmkuð heimild til að veita Schengen-ríkjum réttaraðstoð vegna opinberra mála í samræmi við 51. gr. Schengen-samningsins.

III. kafli frv. hefur að geyma tillögur að breytingum á lögum um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, nr. 56/1993. Þessar breytingar miða að því að fullnægja skuldbindingu samkvæmt 67.--69. gr. Schengen-samningsins og að unnt verði að fullgilda viðbótarsamning við Evrópusamning um flutning dæmdra manna frá árinu 1997. Megintillagan í þessum ákvæðum frv. er að heimilt verður að fullnusta dóm hér á landi án tillits til samþykkis dómstóla ef maður hefur komið sér hjá fullnustu með því að flýja til landsins.

Í IV. kafla frv. er lögð til sú breyting á lögreglulögum að heimilt verður að skipa lögreglumann til að sinna landamæravörslu án þess að hann hafi lokið prófi frá Lögregluskólanum. Þessi í stað er lagt til að viðkomandi þurfi að hafa lokið sérstöku prófi fyrir landamæraverði. Þetta tekur mið af því að ráða þarf lögreglumenn í hlutastörf til að sinna landamæraeftirliti og ástæðulaust er að slíkir starfskraftar þurfi að fullnægja öllum þeim kröfum sem gerðar eru til lögreglumanna. Þessir starfskraftar geta á hinn bóginn ekki sinnt öðrum löggæslustörfum en landamæraeftirliti.

[24:30]

Loks er í V. kafla frv. lagt til að heimilt verði að ákveða með reglugerð hvar og hvenær íslenskir ríkisborgarar skuli bera og sýna vegabréf. Þessi heimild var í eldri lögum um vegabréf en féll niður með gildandi vegabréfalögum. Heimildin er m.a. nauðsynleg til að Ísland geti fullnægt þeim kröfum sem gerðar eru til landamæraeftirlits á Schengen-svæðinu.

Herra forseti. Ég hef nú lokið við að mæla fyrir þessum tveim frv. sem hér eru til umræðu á hinu háa Alþingi. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þeim vísað til 2. umr. og hv. allshn. sem ég er sannfærð um að mun fara vandlega yfir þessi mál.