1999-12-08 00:33:41# 125. lþ. 37.6 fundur 236. mál: #A Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi# frv. 16/2000, 237. mál: #A þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu# (breyting ýmissa laga) frv. 15/2000, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[24:33]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Já, virðulegi forseti. Ég verð nú að segja að ég átta mig ekki alveg á þessari gagnrýni frá hv. þm. Ég held að ég hafi farið nokkuð rækilega yfir helstu greinar í frv. En frv. er 20 greinar og þar eru mörg atriði sem er ekki er hægt að fjalla um í einni framsögu.

Í athugasemdum með 4. gr. í frv. segir t.d.:

,,Í 1. mgr. segir að skráning í upplýsingakerfið skuli miða að því að tryggja almannaöryggi og allsherjarreglu, þar með talið öryggi ríkisins. Rétt þykir að þessi tilgangur upplýsingakerfisins, sem kemur fram í 93. gr. Schengen-samningsins, verði beinlínis tilgreindur í lögunum.``

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég sé ekkert athugavert við að hafa þessi ákvæði skilmerkileg í lögum, eins og þau eru sett fram hér í þessu frv. Ég tel þvert á móti að ákjósanlegt sé að gæta að almannaheill og öryggi ríkisins. Ég er ekki eins vel upplýst og hv. þm. og átta mig ekki á til hvaða ríkja hann er vitna. Hann getur kannski frætt mig um þau og hvaða reglur gilda þar.