Fjáraukalög 1999

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 13:35:13 (2526)

1999-12-08 13:35:13# 125. lþ. 38.2 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, JB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 125. lþ.

[13:35]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Varðandi afgreiðslu fjáraukalaga sem liggja fyrir fyrir árið 1999 vill Vinstri hreyfingin -- grænt framboð benda á þær miklu breytingar sem hafa orðið á heildarfjárlögum ársins frá því að fjárlög voru samþykkt fyrir tæpu ári þar sem bæði tekjur og gjöld ríkissjóðs hafa verið stórlega vanáætluð og sú staðreynd, herra forseti, sem við stöndum frammi fyrir við afgreiðslu fjáraukalaga til 3. umr. hlýtur að kalla á stórbætt vinnubrögð við sjálfa fjárlagagerðna og aukna stjórnsýslulega ábyrgð framkvæmdarvaldsins.

Við fögnum því að vísu að tekið sé á ákveðnum rekstrarvanda ákveðinna liða og verkefna ríkissjóðs en það er meiri hluti Alþingis og ríkisstjórn sem ber ábyrgð á gerðum framkvæmdarvaldsins og þar á meðal líka undirbúningi þessara fjáraukalaga og því mun Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.