Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 13:46:32 (2532)

1999-12-08 13:46:32# 125. lþ. 38.7 fundur 251. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (EES-reglur) frv. 115/1999, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 125. lþ.

[13:46]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða. Frv. er í sex greinum.

1. gr. frv. kemur til af því að Liechtenstein hefur ekki yfirtekið gerðir Evrópusambandsins um innflutning sjávarafurða. Í 1. gr. er því kveðið á um að um innflutning sjávarafurða frá Liechtenstein skuli fara eins og frá þriðju ríkjum.

Í 2. og 3. gr. er birtingarháttur á listum um starfsstöðvar í þriðju ríkjum sem innflutningur er heimilaður frá einfaldaður. Í stað þess að birta listann í Stjórnartíðindum er í frv. gert ráð fyrir að Fiskistofa sjái um skrána og birti hana m.a. á heimasíðu sinni á vefnum.

4. gr. frv. gerir ráð fyrir að unnt verði að innheimta gjald fyrir eftirlit sem beri að hafa með afla frystiskipa frá þriðju ríkjum. Breytingin er nauðsynleg til að Ísland uppfylli skyldur sínar samkvæmt viðauka I við EES-samninginn.

Í 5. gr. frv. er lagt til að gildandi bráðabirgðaákvæði um innflutning lifandi sjávardýra verði framlengt til 30. júní 2001. Sótt hefur verið um viðbótarvernd gegn tilteknum fisksjúkdómum til Eftirlisstofnunar EFTA. Viðbótarvernd mundi gera Íslandi kleift að banna innflutning lifandi sjávardýra frá starfsstöðvum þar sem viðkomandi fisksjúkdómar finnast.

Þar til tekin hefur verið ákvörðun um viðbótarvernd þykir nauðsynlegt að tryggja áfram fullt eftirlit með innflutningi lifandi sjávardýra, enda var gert ráð fyrir því í upphafi að það yrði gert áður en núgildandi bráðabirgðaákvæði féllu úr gildi.

Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir að lögin taki þegar gildi.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til hv. sjútvn.