Verndun náttúruperlna

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 14:12:51 (2544)

1999-12-08 14:12:51# 125. lþ. 39.20 fundur 202. mál: #A verndun náttúruperlna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi PHB
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[14:12]

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar. Þau voru reyndar ekki alveg fullnægjandi að mínu mati. Í fyrsta lagi spurði ég hvort mörkuð hefði verið stefna um hvað mikið eigi að gera við þessar náttúruperlur. Ljóst er að ef gert er of mikið, þá afskræmast þær. Ef t.d. verður malbikaður vegur inn í Þórsmörk og tröppur verða þar upp fjöll eins og nú þegar er byrjað að gera, er það afskræming á náttúrunni. Það er afskræming á því sem við viljum sjá á hálendinu. Þarna þarf að marka stefnu um hvað á að gera mikið og aðallega hvað á að gera lítið þannig að ég er ekki alveg ánægður með svör hæstv. ráðherra.

Þeir hópar sem hafa látið hæst undanfarið í sambandi við Eyjabakka eru einmitt þeir hópar sem kannski fara verst með náttúruna núna, með þessar perlur. Það er jeppafólkið sem er keyrandi um allt í Þórsmörk, það eru ferðafélögin sem hafa verið að reisa heilu þorpin í Þórsmörk sem dæmi, eða í Landmannalaugum. Í Básum í Þórsmörk er komið heilt þorp og þar eru komnar tröppur upp fjöll. Þetta er ekki sú náttúra sem ég vil sjá.

Þá kem ég að seinni liðnum sem var um það hvort takmarka eigi aðgang, ekki til þess að ná fram þjónustu eða nokkrum tekjum heldur til þess að takmarka aðganginn. Það er ljóst að ef svo heldur áfram sem hingað til, með tíföldun ferðamanna á 15 ára fresti, verður bara hreinlega allt komið í rúst, allar perlur landsins, nema menn takmarki aðganginn með einhverjum hætti. Það er ekki verið að tala um gjaldtöku til þess að standa undir þjónustu heldur til þess að takmarka aðganginn. Þá er spurningin: Eigum við að hafa happdrætti eða ítölu? Sá sem sækir um í dag fær að fara inn í Þórsmörk eftir fjögur ár en sú fjölskylda sem dregur vinninginn í dag má fara í Þórsmörk í ár en aðrar ekki, eða sá sem vill borga 150 þús. kr. fær að fara inn í Þórsmörk. Einhvern veginn þannig verða menn að takmarka aðganginn því að það er takmarkað framboð af náttúruperlum en ótakmörkuð eftirspurn.