Kynferðisleg misnotkun á börnum

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 14:17:45 (2546)

1999-12-08 14:17:45# 125. lþ. 39.11 fundur 167. mál: #A kynferðisleg misnotkun á börnum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[14:17]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Fyrirspurn þessi er lögð fram vegna eins umdeildasta sýknudóms síðari ára sem vægast sagt hefur vakið mjög margar spurningar, einkum varðandi starfshætti dómstóla, refsiúrræði, meðferð kynferðisbrotamála almennt í kerfinu og refsiúrræði. Hefur Hæstiréttur m.a. verið sakaður um að valda ekki hlutverkinu en sjö af ellefu dómurum sem fóru með málið í héraðsdómi og Hæstarétti vildu dæma ákærða en ekki sýkna hann. Það sýnir vel hve dómurinn er umdeildur að fjögur kærumál eru í gangi vegna hans.

Kynferðisbrot gegn börnum eru í augum þjóðarinnar einn alvarlegasti glæpur sem framinn er enda ljóst að sá glæpur getur eyðilagt líf þolenda um alla framtíð. Fyrir liggur samkvæmt svari sem ég fékk á Alþingi fyrir 2--3 árum að aðeins var birt ákæra í 45 málum af 465 sem kærð voru á fjögurra ára tímabili eða um 10% þeirra mála sem barnaverndarnefndir fá til meðferðar. Það ásamt þessum mjög svo umdeilda sýknudómi sýnir okkur að alvarleg brotalöm er í réttarfarinu sem kallar á ítarlega úttekt á stöðu þolenda kynferðisbrota og raunar öllu kæruferli í réttar- og dómskerfinu frá því kæra berst og þar til úrskurður dómstóla liggur fyrir. Þetta kallar líka á endurskoðun laga um meðferð opinberra mála, svo sem varðandi rannsóknaraðferðir, sönnunarkröfur og mat á sönnunargögnum þegar kynferðisbrotamál eiga í hlut, ekki síst gagnvart börnum og raunar á heildarendurskoðun á lagaákvæðum varðandi starfshætti dómstóla. En um það er spurt í þessari fyrirspurn.

Það er líka spurt hvort ekki eigi að vera skylda að kveðja til meðdómendur með sérfræðikunnáttu á sviði kynferðisbrota þegar dómstólar fjalla um kynferðislega misnotkun á börnum. Mikilvægt er að fá fram afstöðu hæstv. dómsmrh. í þessu máli og því er spurt hvort ráðherra telji ástæðu til viðbragða vegna þessa sýknudóms, einnig hvort hæstv. ráðherra telji ekki rétt að ákvæði 3. mgr. 157. gr. laga um meðferð opinberra mála um munnlega sönnunarfærslu hefði átt að beita í umræddu dómsmáli.

Virtur prófessor, Eiríkur Tómasson, hefur látið hafa eftir sér að vafi leiki á því í þessu dómsmáli hvort Hæstiréttur hafi virt viðurkennda grundvallarreglu um jafnræði aðila fyrir dómi og það er áleitin spurning hvort ekki komi að því að krafist verði endurupptöku þessa sýknudóms.

Vissulega er líka ástæða til að velta fyrir sér hvort reglur um sönnunarfærslu séu nægjanlega hlutlægar og það vekur furðu þegar lögmaður ákveður að leggja fram ný gögn í málinu fyrir Hæstarétt, af hverju ákæruvaldinu eða þeim sérfræðingum sem gáfu skýslur í héraðsdómi var ekki gefinn kostur á munnlegri sönnunarfærslu og að mæta fyrir dómi, sérstaklega þegar Hæstiréttur virðist hafa byggt úrskurð sinn að miklu leyti á þeim gögnum.

Í fyrirspurninni er líka leitað álits hæstv. ráðherra á því hvort herða eigi viðurlög við kynferðisbrotum gagnvart börnum.