Frummatsskýrsla um álver á Reyðarfirði

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 14:42:01 (2555)

1999-12-08 14:42:01# 125. lþ. 39.4 fundur 132. mál: #A frummatsskýrsla um álver á Reyðarfirði# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Nú er til athugunar hjá skipulagsstjóra frummatsskýrsla vegna fyrirhugaðs álvers á Reyðarfirði og skýrsla sú er lögð fram af fyrirtæki sem heitir Eignarhaldsfélagið Hraun ehf. og kemur fyrirtækið fram fyrir óstofnað hlutafélag um álver við Reyðarfjörð.

Ekkert í frummatsskýrslunni bendir til að nefnt félag hyggist hefja framkvæmdir við álver á Reyðarfirði og ekkert umboð eða beiðni kemur fram í skýrslunni frá neinum sem gæti talist framkvæmdaraðili í skilningi laganna. Í lögunum um mat á umhverfisáhrifum segir í 7. gr., með leyfi forseta:

,,Áður en hafist er handa um framkvæmdir sem lög þessi eða reglugerð samkvæmt þeim taka til skal framkvæmdaraðili senda skipulagsstjóra tilkynningu um fyrirhugaða framkvæmd þar sem fram kemur lýsing á framkvæmdinni, ráðgerðri hönnun og hugsanlegri umhverfisröskun og fyrirhuguðum ráðstöfunum til að draga úr henni og aðrar upplýsingar sem skipulagsstjóri telur nauðsynlegar.``

Þetta er hin svokallaða frummatsskýrsla, herra forseti, og þarna kemur fram að það er framkvæmdaraðili sem skal annast hana. Í sömu lögum um mat á umhverfisáhrifum segir í 2. gr. um framkvæmdaraðila, með leyfi forseta:

,,Framkvæmdaraðili: Ríki, sveitarfélag, stofnun eða fyrirtæki í eigu slíkra aðila að nokkru eða hluta, lögaðili eða einstaklingur er hyggst hefja framkvæmdir sem lög þessi taka til.``

Hraun ehf. virðist vera staðgengill fyrir óstofnað hlutafélag en mér sýnist hæpið að telja Hraun ehf. framkvæmdaraðila að lögum. Eitthvað kostar svona skýrslugerð því að hér er um afskaplega viðamikla skýrslu að ræða sem gefin er út í þremur stórum plastmöppum með mjög mörgum kortum og virðist vera vandað til gerðar skýrslunnar á flestan hátt. Spurning mín í framhaldi af þessu til hæstv. iðnrh. er svohljóðandi:

Hver hefur borið kostnaðinn af gerð frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs álvers sem kynnt var 14. október 1999 í nafni eignarhaldsfélagsins Hrauns ehf.?

Hvað kostaði gerð skýrslunnar?