Frummatsskýrsla um álver á Reyðarfirði

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 14:49:45 (2557)

1999-12-08 14:49:45# 125. lþ. 39.4 fundur 132. mál: #A frummatsskýrsla um álver á Reyðarfirði# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[14:49]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. greinargóð svör og afskaplega ítarleg. Ég lýsi yfir ánægju minni með að það skuli koma fram í yfirlýsingu hæstv. ráðherra að væntanlegur framkvæmdaraðili beri á endanum þennan kostnað.

Á hitt er að líta að ég vona að það liggi fyrir innan tíðar hversu stór kostnaðarliður þessi skýrsla er í heildina því að eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra eru 50,5 millj. einungis hluti iðnrn. og þar er innifalið það fé sem Norsk Hydro hefur lagt til málsins.

Herra forseti. Þá vil ég líka þakka hæstv. iðnrh. fyrir að ramma það svo inn í sinni ræðu að Norsk Hydro sé með og þurfi og ætli að vera með og að það sé afskaplega mikilvægt fyrir Norsk Hydro að þetta haldi allt saman áætlun.

Enn fremur vil ég líka þakka hæstv. ráðherra fyrir að fræða mig um kísilmálmverksmiðjuna og það hvernig farið var fram þegar Atlantal-hópurinn var á sínum tíma að vinna sambærileg mál og sérstaklega þá kannski fyrir að vekja athygli mína á því að hv. þingmenn og varaþingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs skuli hafa komið að því máli.

Varðandi eitt atriði sem hæstv. iðnrh. nefndi í sinni ræðu, þ.e. starfsleyfið, sem er greinilega í undirbúningi þá gagnrýni ég það, herra forseti, að starfsleyfið skuli ekki hafa legið fyrir á sama tíma og frummatsskýrslan er til skoðunar. Það vekur miklar spurningar að starfsleyfið skuli ekki vera til staðar núna þegar verksmiðjan er auglýst í þetta matsferli á umhverfisáhrifum. Ég hefði talið það til mikilla bóta fyrir málið í heild, þegar það er metið, að starfsleyfið væri til staðar þegar frummatsskýrslan er metin. Ég tel okkur vera með mikinn tvíverknað og undarlega röð á hlutunum þegar það er ekki á þann veg.