Samstarf á sviði rannsókna og nýsköpunar

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:06:53 (2563)

1999-12-08 15:06:53# 125. lþ. 39.6 fundur 177. mál: #A samstarf á sviði rannsókna og nýsköpunar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Framfarir á öllum sviðum og nýsköpun verða í gegnum rannsóknir. Nýsköpun er forsenda framfara og nýsköpun byggir einatt á rannsóknum. Þannig hafa mestar framfarir orðið á eiginlega öllum sviðum þjóðfélagsins nú á síðustu áratugum.

Hins vegar er ljóst að rannsóknir kosta fé og sá kostnaður skilar sér ekki endilega alltaf í arði til baka. Það er eðli rannsókna. Nú ber þess að gæta að Ísland er lítið og þess vegna mikilvægara fyrir okkur sem smáþjóð að nýta hverja krónu betur heldur en hjá stærri þjóðum.

Herra forseti. Það hefur jafnframt komið fram í úttekt á vegum OECD að Íslendingar verja minni fjármunum til rannsókna en almennt gengur og gerist meðal þjóða OECD og á ég þar við fjármuni til rannsókna og þróunarstarfs. Það gildir bæði um opinbera geirann og ekki síður um einkageirann. Þetta kom m.a. fram í skýrslu sem birt var fyrir tveimur árum og á ráðstefnu á dögunum á vegum Rannís, Rannsóknarráðs Íslands.

Það segir sig sjálft að á þessu þarf að vinna bót því að enginn vill vinna gegn framförum. Frá Rannsóknarráði Íslands hafa m.a. komið tillögur um breytingar á skattkerfinu sem gætu stuðlað að því að fyrirtæki í einkaeigu verji meiri fjármunum til rannsókna. En hvað varðar opinbera geirann, og vil ég þá árétta það sem ég nefndi áðan að við erum lítil þjóð og þurfum að velta hverri krónu vel fyrir okkur og nýta hverja krónu mjög vel, þá eru stundaðar rannsóknir og nýsköpun mjög víða í opinbera geiranum. Nægir þar að nefna Nýsköpunarsjóð sem ég hygg reyndar að standi naumast undir því nafni, Rannsóknarráð Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, háskólann, Iðntæknistofnun, sumt af fjárveitingum einstakra ráðherra, Byggðastofnun, einstök atvinnuþróunarfélög og þannig má áfram telja. Það er sem sagt ljóst, herra forseti, að rannsóknum er mjög dreift í hinar ýmsu stofnanir á vegum hins opinbera og það sem meira er, svolítil hætta er á að rannsóknirnar lokist inni í þeim stofnunum.

Að þessu sögðu, herra forseti, beini ég þeirri spurningu til hæstv. iðnrh. vegna þess að margar af þessum rannsóknastofnunum heyra undir ráðuneyti hans, hvort hann hafi í hyggju að sameina einhverjar af þessum stofnunum, auka samstarf þeirra eða breyta fyrirkomulagi á einhvern hátt.