Samstarf á sviði rannsókna og nýsköpunar

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:10:09 (2564)

1999-12-08 15:10:09# 125. lþ. 39.6 fundur 177. mál: #A samstarf á sviði rannsókna og nýsköpunar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:10]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason spyr:

,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir samruna, sameiningu eða frekara samstarfi stofnana og sjóða hjá hinu opinbera á sviði rannsókna og nýsköpunar?``

Samruni, sameining og samstarf stofnana og sjóða hjá hinu opinbera snýst um hagræðingu og meiri árangur. Ég tek undir það sem fram kom í framsögu hv. þm. Í þessu felst betri nýting fjármagns, húsnæðis og búnaðar en ekki síst hámarksnýting þekkingarinnar, þ.e. mannauðsins. Vinna af þessum toga er viðvarandi verkefni og hefur verið viðvarandi verkefni í iðnrn. þó svo að rannsóknastofnanirnar sem slíkar eða Rannsóknarráð sem slíkt heyri ekki undir iðnrn. heldur menntmrn. og gott samstarf hefur verið milli ráðuneyta um að gera þar bragarbót á.

Í hnotskurn snýst verkefnið ekki um hvort heldur hvernig þessu verður komið við. Umræðan um skipulagningu opinberra rannsókna fyrir atvinnulífið á sér margra áratuga sögu og hefur verið breytt nokkrum sinnum. Þær breytingar voru eðlilegar á sínum tíma í ljósi þeirra aðstæðna sem ríktu hér á landi og í nágrannalöndunum. Núverandi fyrirkomulag er fest í sessi með lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, og er það því komið nokkuð til ára sinna. Í lögunum er kveðið á um að á vegum ríkisins skyldu starfræktar fimm rannsóknastofnanir sem fengju afmarkað verkefni er tengdist höfuðatvinnugreinunum þremur, landbúnaði, iðnaði og sjávarútvegi.

Hin síðari ár hefur þróun vísinda og tækni ekki fylgt þeirri skipan sem þarna var komið á. Augljósustu dæmin um þetta er tilkoma nýrra atvinnugreina eins og upplýsingatækninnar og líftækninnar. Báðar þessar greinar eru þverfaglegar í hefðbundnum skilningi þess orðs, en í því felst að þær falla ekki innan eins tiltekins atvinnusviðs heldur eru jafnmikið iðnaðarmál eins og landbúnaðarmál eða sjávarútvgsmál.

Þegar þróun atvinnulífsins er eins ör og hún er nú og hefur verið hin síðari ár er í sjálfu sér við því að búast að framsýni manna sé bundin við tiltekna og viðurkennda sérhagsmuni atvinnugreinatengdra rannsóknarhagsmuna. Þetta býður þeirri hættu heim að tækifæri til nýsköpunar tapist og má leiða að því líkur að það hafi gerst í allmörgum tilvikum. Við þessu hefur verið brugðist með því að efla samstarf stofnana fremur en að sameina þær. Þessi þróun hefur gengið hægt og í raun mun hægar en æskilegt er. Ástæður þessa eru nokkrar og liggur rót þeirra flestra sennilega í atvinnugreinaskiptingu Stjórnarráðsins.

Af öðrum ástæðum má nefna að hagsmunagæsla atvinnugreinasambandanna og ólíkir efnahagslegir hagsmunir atvinnugreinanna vega mikið og þá þvælast hagsmunir einstakra stofnana einnig fyrir. Fyrir fjórum til fimm árum var ráðuneytisstjórunum falið að gera tillögur um sameiningu rannsóknastofnana atvinnuveganna. Það tókst þeim ekki og hefur ekki tekist en Rannís var fengið verkefnið og er að vinna að málinu nú innan frá og í samráði við stofnanirnar.

Þetta þýðir þó ekki að ekkert hafi áunnist. Mikilvægast hefur verið samstarf Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Matvælarannsóknir og efnagreiningar þeirra hafa verið sameinaðar undir heitinu Matvælarannsóknir Keldnaholti annars vegar og Efnagreiningar Keldnaholti hins vegar. Nú er þriðja sameiginlega sviðið í uppsiglingu og er það kallað Líftækni Keldnaholti.

Iðnrn. og Iðntæknistofnun hafa markað þá stefnu að sinna þörfum alls atvinnulífsins. Í þessu felst að Iðntæknistofnun mun eftir því sem efni leyfa, sinna öllum þeim þörfum atvinnulífsins sem aðrir sinna ekki. Í þessum tilgangi er hjá Iðntæknistofnun rekin þjónustumiðstöð fyrir atvinnulífið er nefnist Impra. Impra tók til starfa í mars sl. og rekur fjölmörg verkefni fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Hjá Impru geta einstakingar og fyrirtæki leitað eftir leiðsögn og handleiðslu sem m.a. tengist stofnun fyrirtækja, vöruþróun og öllu er lýtur að rekstri og erlendum samskiptum og samvinnu. Þetta er sennilega mikilvægasta skref sem stigið hefur verið til þess að vinna þvert á hina hefðbundu skiptingu í atvinnurannsóknabatteríinu. Nýjum verkefnum sem tengjast atvinnuþátttöku kvenna hefur þar einnig verið komið fyrir.

Ég vil undirstrika þá skoðun mína, og það verða niðurlagsorð mín, að breytinga er þörf á stuðningskerfi nýsköpunar og rannsókna í landinu. Til þess þarf víðtæka samstöðu sem enn hefur ekki tekist að skapa. Hversu lengi dugir að lappa upp á núverandi fyrirkomulag veit ég ekki en ljóst má vera að það dugir ekki lengi.