Söfnun lífsýna

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:19:42 (2567)

1999-12-08 15:19:42# 125. lþ. 39.13 fundur 191. mál: #A söfnun lífsýna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:19]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Nú er vitað að eitt mesta hitamál okkar samfélags er svokallaður gagnagrunnur á heilbrigðissviði og áform yfirvalda um að fela tilteknu fyrirtæki heilbrigðisupplýsingar íslensku þjóðarinnar til að stunda viðskipti með. Almennt er þetta hitamál með þjóðinni og eru læknar þar ekki undanskildir.

Fyrir þinginu liggja fyrirspurnir frá mér um viðskiptasamninga sem læknar á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum landsins kunna að hafa gert við Íslenska erfðagreiningu eða fyrirtæki sem henni tengjast. Ekki eru allir læknar á þessu máli. Sumir eru mjög gagnrýnir á fyrirhugaða viðskiptasamninga sem ríkið hefur forgöngu um. Nú berast þær fréttir að þeim læknum fjölgi sem hafa hreinlega hætt að nota tölvuskráningu upplýsinga vegna kaupa Íslenskrar erfðagreiningar á Gagnalind og sjúkraforritinu Sögu. Reyndar bárust um það fregnir í morgun að menn séu að færa þar til einhver nöfn til að fá á þetta fegurra yfirbragð.

Það eru ekki aðeins læknarnir sem hafa um þetta efasemdir heldur sjúklingarnir líka. Þeir eru oft í sambandi við lækna sem eru ákafir talsmenn þessa fyrirtækis og hafa hugsanlega gert við það viðskiptasamninga. Ég hef mörg dæmi um að sjúklingar forðist að segja lækni sínum frá því að þeir hafi sagt sig úr gagnagrunninum til að spilla ekki sambandinu. Margir hafa efasemdir um að heppilegt sé að halda sambandi við sinn lækni.

Ég hef einnig fengið vísbendingar og upplýsingar um að læknar hafi hvatt fólk til að ganga inn í smærri rannsóknir, t.d. geðsjúklinga, á þeirri forsendu að þeir séu að stuðla að framförum og megi ekki standa í vegi fyrir þeim. Þannig er óbeinum þvingunaraðgerðum beitt ef satt reynist. Þess vegna beini ég þessum tveimur spurningum til hæstv. heilbr.- og trmrh.:

,,1. Hafa borist kvartanir til heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins yfir aðgangshörku rannsakenda við sjúklinga um lífsýni?

2. Er sjúklingum gefinn raunhæfur kostur á að taka ekki þátt í rannsóknum, kjósi þeir það, eða er gefið í skyn að með því minnki þeir möguleika sína eða ættingja til bata?``