Beinþynning

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:37:48 (2573)

1999-12-08 15:37:48# 125. lþ. 39.12 fundur 180. mál: #A beinþynning# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:37]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda Svanfríði Jónasdóttur fyrir að vekja máls á beinþynningu sem er mjög alvarleg og verður víst einn alvarlegasti sjúkdómur 21. aldarinnar eftir því sem sagt er.

Mig langar að geta þess að Kvenfélagasamband Íslands átti þátt í stofnun félagsins Beinverndar og styrkti rannsóknir á beinþynningu fyrir nokkrum árum. Það er þó eitt víst að gott fæði fyrstu ár ævinnar hefur mest að segja, og vil ég minna á okkar góðu mjólkurafurðir og lýsið sem skiptir þarna miklu máli ásamt hreyfingu. Og eitt sem fólk ætti að varast, sem ekki vill fá beinþynningu, er að byrja aldrei að reykja. Það er nauðsynlegt að hafa sem mesta fræðslu varðandi beinþynningu og vil ég minna á að félagið Beinvernd sér um það og gerir það afar vel.