Almenningssamgöngur á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:48:10 (2579)

1999-12-08 15:48:10# 125. lþ. 39.18 fundur 194. mál: #A almenningssamgöngur á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:48]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl. hefur gert grein fyrir fyrirspurn sinni og mun ég nú svara henni.

Fyrsta spurningin er hver afkoma sérleyfishafa sem annast ferðir á landsbyggðinni á síðasta ári hafi verið og einnig það sem af er þessu ári. Það skal strax tekið fram að engar tiltækar áreiðanlegar tölur eru fyrirliggjandi um afkomu allra sérleyfishafa, hvorki á síðasta ári né það sem af er þessu ári. Skýringin á því er e.t.v. sú að rekstur þessi er mjög breytilegur og blandaður.

Í fyrsta lagi er um að ræða einyrkja með tvær til þrjár bifreiðar sem sinna akstri á tiltölulega stuttum leiðum og upp í tiltölulega stór fyrirtæki sem velta á annað hundrað millj. kr. og annast akstur í heilum landshlutum. Öll eiga þessi fyrirtæki það þó sameiginlegt að stunda einnig annan akstur og þá helst hópferðaflutninga á opnum samkeppnismarkaði.

Sérleyfishafar hafa hins vegar margir lýst því yfir að afkoman fari sífellt versnandi og að staða margra sé orðin óviðunandi vegna tapreksturs. Ég held að flestir sem að þessu máli hafa komið séu sammála um að mat sérleyfishafanna sé rétt og ég hef enga ástæðu til að ætla að annað sé.

Þá er spurt: ,,Hver er staða sérleyfisrekstrar á Austurlandi, m.a. til og frá Hornafjarðarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli?``

Ég verð að byrja á að vitna til svars míns við fyrstu spurningunni því ekki liggur fyrir greinargott yfirlit um afkomu sérleyfishafa á Austurlandi frekar en annarra sérleyfishafa. Það sem ég get þó sagt er að á Austurlandi eru starfandi sjö sérleyfishafar sem annast akstur innan svæðisins. Tveir þessara aðila aka einungis á sumrin. Öll eru þessi fyrirtæki frekar lítil. Þrír sérleyfishafanna, þ.e. Sérleyfisbílar suðurfjarða, Austfjarðaleið og Hjörtur Ásgeirsson á Djúpavogi, hafa lýst því yfir að rekstur sérleyfisaksturs þeirra standi engan veginn undir sér og því tímaspursmál hvenær þeir neyðist til þess að hætta rekstrinum. Hjörtur Ásgeirsson hætti reyndar tímabundið akstri í haust vegna þessa óvissu\-ástands. Ég vil taka það skýrt fram að þessir þrír áðurnefndu austfirsku sérleyfishafar hafa fengið sérstaka styrki umfram hefðbundna styrki til allra sérleyfishafa á landinu undanfarin ár. Umframstyrkur þessi er í námunda við 1 millj. á hvern sérleyfishafa.

Þá er spurt: ,,Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar af hálfu ráðuneytisins til að treysta almenningssamgöngur á landsbyggðinni?``

Mér er vel ljós sá vandi sem almenningssamgöngur á landsbyggðinni eiga við að glíma og þeir sem þær stunda eins og fram hefur komið hér á undan. Það er þó ekki hægt að taka á vandanum nema fyrir liggi nægar upplýsingar. Upplýsingar um styrki til sérleyfishafa eru fyrir hendi. Á fjárlögum er 51 millj. kr. sem er undir lið Vegagerðarinnar sem er áætlun um endurgreiðslur á þungaskatti. Endurgreiðslur þessar taka mið af ekinni vegalengd miðað við ákveðna stærð á fólksflutningabíl hjá sérleyfishöfum á landsbyggðinni. Til viðbótar á þessum sama fjárlagalið eru 3 millj. kr. sem eru styrkir til verst stöddu sérleyfishafanna. Undanfarið hafa þessar 3 millj. kr. allar runnið til sérleyfishafa á Austurlandi. Undir liðnum Vetrarsamgöngur hjá samgrn. eru til viðbótar 1,8 millj. kr. sem renna einnig allar til sérleyfishafa á Austurlandi.

Við þetta er að bæta að strætisvagnar í þéttbýli fá einnig styrki beint í formi eftirgjafar á þungaskatti. Hér er um að ræða strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, Ísafirði og örfáum öðrum minni stöðum. Langstærsti hlutinn er þó vegna höfuðborgarsvæðisins. Eftirgjöf þessi er áætlað að nemi 64 millj. kr. á þessu ári. Styrkir til almenningssamgangna á landi frá ríkinu er því samtals um 120 millj. kr. Þetta eru töluverðir fjármunir þó að sumir telji þá ekki næga. Ég vil taka sérstaklega fram að almenningssamgöngur í þéttbýli eru styrktar á líkan hátt og á landsbyggðinni þótt forsvarsmenn sumra sveitarfélaga geri lítið úr því.

Til þess að bæta úr var samið við Háskóla Íslands um sérstaka úttekt á þessum málum, þ.e. almenningssamgöngum á landsbyggðinni. Fyrir liggur skýrsla núna í samgrn. sem ég mun nota til þess að leggja á ráðin um endurskipulagningu og breytingar á almenningssamgöngum á landsbyggðinni.