Brunavarnir og brunamál

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 18:37:34 (2592)

1999-12-08 18:37:34# 125. lþ. 40.1 fundur 244. mál: #A brunavarnir og brunamál# (brunavarnagjald) frv. 127/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 125. lþ.

[18:37]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er mjög óvanalegt þegar þingmenn standa upp og beina ákveðnum spurningum til hæstv. ráðherra um mikilvæg mál sem þeir telja nauðsynlegt að fá svar við, að ráðherra svari ekki. Við erum að fjalla um mjög alvarlegt mál sem er um að brunavörnum í skólum sé áfátt. Það gengur auðvitað ekki að yfirmaður brunamála í landinu sitji bara kyrr í sínum ráðherrastól og telji enga ástæðu til að svara því eða hafa skoðun á málinu. Ég mundi vissulega skilja það mætavel ef hæstv. ráðherra kæmi í þennan ræðustól og segðist ekki hafa kynnt sér umrædda skýrslu en hyggist gera það og gefa Alþingi þá svör síðar. En það er lágmark, herra forseti, að hæstv. ráðherra sýni þinginu þá virðingu að svara þeim spurningum sem til hennar er beint. Mér þykir verra að hafa eytt seinni ræðutíma mínum í það að draga hæstv. ráðherra hingað upp í ræðustól, ef ýmislegt kæmi nú markvert fram í máli hæstv. ráðherra því að ég sé að hún hefur beðið um orðið.