Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 20:02:15 (2631)

1999-12-09 20:02:15# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[20:02]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að fjölmiðlar flytja hverja fréttina á fætur annarri af því að hér sé um ákveðna bankasameiningu að ræða. Ég hef sagt það bæði í fjölmiðlum og hér í þinginu að engar slíkar viðræður eru í gangi af hálfu eigenda og eftir því sem ég veit best eru engar slíkar viðræður heldur í gangi af fulltrúum þeirra aðila sem að stýra bönkunum.

En af því að hv. þm. vitnaði í sjónvarpsviðtal við mig frá því í kvöld, þá sagði ég þar að einstakir þingmenn flyttu þau mál hingað inn á Alþingi og væru með þau hér í málþófi. Það er ágætt að hv. þm. tekur það til sín vegna þess að hann á að taka það til sín. Til dæmis flutti hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir efnismikla og góða ræðu fyrr í dag og spurði fjölmargra spurninga sem hún vildi fá svör við en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flutti hins vegar tveggja klukkustunda langa ræðu með engri spurningu.