1999-12-14 16:30:02# 125. lþ. 45.8 fundur 257. mál: #A bráðabirgðasamningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Frelsissamtaka Palestínu (PLO)# þál. 7/125, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[16:30]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Með þáltill. þessari er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda fyrir Íslands hönd bráðabirgðasamning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Frelsissamtaka Palestínu, PLO, fyrir hönd Þjóðarráðs Palestínu, sem undirritaður var í Leukerbad 30. nóvember 1998.

Tilgangurinn með gerð bráðabirgðasamningsins við PLO er hluti af því ferli að tryggja jafnvægi milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsríkjanna í viðskiptum við löndin við sunnanvert Miðjarðarhaf. Samningurinn er ekki síður mikilvægur hlekkur í því að styðja við og stuðla að frekari friði og framförum fyrir botni Miðjarðarhafs. Samningurinn er gerður til bráðabirgða eins og heiti hans gefur til kynna og verður endurskoðaður í ljósi þróunar friðarumleitana fyrir botni Miðjarðarhafs og í samhengi við yfirfærslur á auknu stjórnarvaldi til þjóðarráðs Palestínu í framtíðinni.

Fríverslunarsamningurinn við PLO er á sömu nótum og aðrir fríverslunarsamningar sem EFTA-ríkin hafa gert. Hann kveður á um fríverslun með iðnaðarvörur sem felur í sér að EFTA-ríkin og PLO fella niður alla innflutningstolla og gjöld á þær vörur, þó með nokkrum undantekningum sem upp eru taldar í I. viðauka og varða vörur sem heyra undir 25.--97. kafla í samræmdu vörulýsinga- og vörunúmeraskránni (ST) þegar þær eru fluttar inn í EFTA-ríkin eða á Vesturbakkann eða Gaza-svæðið eins og tilgreint er við hvern vörulið.

Varðandi viðskipti með sjávarafurðir þá felur samningurinn í sér fríverslun með fisk en tekið er mið af því í samningnum við palestínsk yfirvöld að þau eru bundin af Parísarsamningnum við Ísrael hvað varðar sjálfstæðar ákvarðanir um viðskipti með fisk og aðrar sjávarafurðir. Þannig gilda allar breytingar á fríverslunarsamningi EFTA og Ísraels um verslun aðildarríkjanna á þessu sviði þar til PLO hefur öðlast fullt stjórnfrelsi í þeim málum.

Palestínsk yfirvöld fá aðlögunartíma fram til ársins 2004 til að fella niður alla innflutningskvóta og tolla á vörum sem skráðar eru í töflu 2 í II. viðauka samningsins en annars skal afnema alla innflutningstolla og gjöld á vörur sem skráðar eru í töflu 1 um leið og aðstæður leyfa.

Tvíhliða landbúnaðarsamningur Íslands og palestínskra yfirvalda var gerður samhliða bráðabirgðasamningnum og er hann prentaður sem fylgiskjal merkt með IV.

Viðskipti Íslendinga og Palestínumanna hafa ekki verið mikil að vöxtum og ekki eru til neinar skilgreindar tölulegar upplýsingar um þau viðskipti enn sem komið er en hér er verið að huga að framtíðinni eins og menn átta sig á.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni umræðunni verði tillögu þessari vísað til hv. utanrmn.