1999-12-14 16:40:26# 125. lþ. 45.20 fundur 195. mál: #A alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu (CITES)# þál. 2/125, Frsm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[16:40]

Frsm. utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir hönd utanrmn. fyrir nál. um tillögu til þál. um aðild að samningi um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu. Samningurinn gengur undir styttingunni CITES á ensku.

Markmið þessa samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna, sem eru í útrýmingarhættu, er að vernda þessar tegundir dýra og plantna með því að stjórna alþjóðlegum viðskiptum með þær. Samningurinn nær bæði til viðskipta með lifandi dýr og dauð sem og með plöntur. Hann er í eðli sínu viðskiptasamningur sem inniheldur reglur um innflutning, útflutning og endurútflutning þeirra dýra og plantna sem skráð eru í viðaukum við samninginn. Auk þess nær hann yfir aðflutning dýra úr sjó. Dýr og plöntur sem falla undir samninginn eru talin upp og flokkuð í þremur viðaukum eftir því hvaða reglur gilda um alþjóðaverslun með þau.

Aðildarríki samningsins voru 145 í ágúst 1999. Öll nágrannaríki okkar eru aðilar að samningnum og flest Evrópuríki nema Ísland, Albanía og Írland. Með aðild getur Ísland haft áhrif á hvaða tegundir eru skráðar í viðauka við samninginn. Þetta er m.a. mikilvægt í ljósi vaxandi umfjöllunar um skráningu fisktegunda í viðaukana. Hvert aðildarríki fer með eitt atkvæði en nú um stundir eru Íslendingar einungis áheyrnaraðilar.

Í nál. koma fram upplýsingar um það hvernig vísindalegt mat fer fram á vegum CITES og einnig eru þar upplýsingar um það hvernig ríki geta gert fyrirvara um tilteknar tegundir sem tilgreindar eru í viðaukum I--III við samninginn.

Nefndin hefur farið yfir málið og skilað allítarlegum upplýsingum í nál. Hún leggur til að tillagan verði samþykkt.

Auk formanns og framsögumanns rita undir nál. hv. þingmenn Valgerður Sverrisdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Fjeldsted.