Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 11:21:10 (2933)

1999-12-15 11:21:10# 125. lþ. 46.3 fundur 270. mál: #A Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga# frv. 113/1999, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[11:21]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að framlög úr sjóðnum mega ekki renna til nýbygginga. Það má segja að ég hafi mismælt mig því að ég vissi þetta en gleymdi mér í ræðu minni. En ég mótmæli eftir sem áður skerðingu á sjóðnum, ekki bara núna heldur allan þann tíma sem sjóðurinn er og verður til, að hann verði ekki allur notaður til þess verkefnis sem honum var ætlað í upphafi.

Ég var ekki að draga úr framlögum ríkisins til menningarmála. Ég tók fram að ríkið tæki myndarlega á og ekki síst í Reykjavík vegna þess hlutverks sem Reykjavíkurborg hefur sem menningarborg á næsta ári. Ríkið kemur þar verulega inn í. En það eru framlög úr ríkissjóði sem renna til menningarmála, til þessara bygginga. Þetta er bara spurning á hvaða lið þetta kemur og mér finnst það vera prinsippmál að allt það fé sem sjóðnum er ætlað fari til þessara verkefna.