Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 17:00:27 (3162)

1999-12-16 17:00:27# 125. lþ. 47.12 fundur 25. mál: #A innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta# (EES-reglur) frv. 98/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[17:00]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Efni þessa frv. er að gert er ráð fyrir að Tryggingarsjóður viðskiptabanka og innstæðudeild Tryggingarsjóðs sparisjóða sameinist, auk þess sem komið verði á fót tryggingakerfi fyrir fjárfesta í tengslum við tilskipun Evrópusambandsins. Ég hef skrifað undir nál. efh.- og viðskn. ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur með fyrirvara, en fyrirvari okkar lýtur að lágmarksvernd og skipan í stjórn Tryggingarsjóðs.

Ef ég byrja fyrst, herra forseti, á tryggingaverndinni þá er 10. gr. ein mikilvægasta grein frv. að því er varðar tryggingavernd fyrir innstæðueigendur en í 10. gr. segir:

,,Nú hrökkva eignir viðkomandi deildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum og skal þá greiðslu úr hvorri deild skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra allt að 1,7 millj. kr. er bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir hvorrar deildar hrökkva til.``

Þá vaknar sú spurning hvort hér sé um að ræða nægjanlega tryggingavernd þegar kröfuhafar eða innstæðueigendur eru tryggðir raunverulega upp að 1,7 millj. með inneignir sínar, sem er þá bætt að fullu, en hlutfallslega eftir því sem eignir sjóðsins hrökkva til varðandi það sem eftir stendur af innstæðunum. Að því lýtur sú brtt. sem við höfum gert og verð ég að segja, herra forseti, að ég hef haft nokkrar áhyggjur af þeirri fjárhæð sem þarna er tilgreind. Við í minni hlutanum kölluðum eftir nokkrum upplýsingum frá ráðuneytinu til að geta lagt mat á þá tryggingavernd sem þarna kemur fram og þá tryggingavernd sem er í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Vil ég með nokkrum orðum fara yfir það hvernig málið stendur að því er varðar tryggingaverndina í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.

Þar kemur fram að flest EES-ríki tryggja innstæðueigendur og fjárfesta einungis að því fjárhæðarmarki sem áskilið er sem lágmark í tilskipum ESB, sem er 20 þús. evrur, og sum ríkin nýta sér heimild í tilskipun til að tryggja einungis 90% af innstæðum á verðbréfum upp að 20 þús. evrum, þ.e. sjálfsáhætta innstæðueigenda og fjárfesta er 10%. En frá þessu eru undantekningar. Hvað innstæðutryggingar varðar eru Finnland og Noregur veigamestu undantekningarnar. Í Finnlandi eru innstæður tryggðar að fullu. Það er sem sagt ekkert þak sett á eins og er í því frv. sem við hér ræðum upp á 1.700 þús. sem er nálægt því sem áskilið er sem lágmark í tilskipun ESB. Í Noregi er tryggingaverndin allt að 250 þús. evrur, sem er margfalt það sem lágmarkið er í tilskipuninni og margfalt það sem hér er lagt til að verði tryggingavernd fyrir innstæðueigendur hér á landi. Það er rúmlega tífalt meira raunverulega en ESB-tilskipunin gerir ráð fyrir. Einnig bjóða Svíþjóð, Danmörk, Frakkland, Bretland og Portúgal, og Ísland er reyndar einnig í þeim hópi, heldur meiri vernd en áskilið er sem lágmark. Er það raunverulega mjög lítið sem gert er ráð fyrir í 10. gr. frv. að við bjóðum sem lágmarksvernd umfram þær 20 þús. evrur sem áskilið er. Bretland sker sig úr varðandi tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Þar eru fjárfestar tryggðir fyrir allt að 5,7 millj. kr. og fjárfestar eru tryggðir gegn slæmri ráðgjöf verðbréfafyrirtækja og er nokkuð athyglisvert að það skuli vera tryggt fyrir slæmri ráðgjöf verðbréfafyrirtækja. Ef ég man rétt hefur á þetta reynt þar sem þetta hefur verið gert eins og í Bretlandi.

Lágmarkstryggingin fyrir íslenska innstæðueigendur í dag eru 22 þús. evrur en lágmarkið í tilskipuninni eru 20 þús. evrur. Í þeim upplýsingum sem við kölluðum eftir báðum við um það að nefndin fengi upplýsingar hver væri inneign að meðaltali hjá hverri innlánsstofnun og verðbréfafyrirtæki og fjölda einstaklinga með innstæður undir 1.700 þús., þ.e. undir því lágmarki sem tryggir innstæðueigendum fullar greiðslur ef illa fer í þeim banka sem þeir eiga sparifé sitt geymt í. Þá kemur í ljós að ráðuneytið hafði óskað eftir þessum upplýsingum hjá einum viðskiptabanka og samþykkti hann að taka saman þessar upplýsingar. Eingöngu voru teknir með í útreikningana innstæður yfir 10 þús. kr. en um helmingur innlánsreikninga í viðkomandi viðskiptabanka er með innstæður undir þeirri fjárhæð. Meðalinnstæða þeirra innstæðueigenda sem voru með hærri innstæðu en 10 þús. en undir 1.700 þús. kr. var 544.965 kr.

Nú skal ég ekki segja hversu marktæk þessi úttekt eða könnun er sem gerð var hjá einum banka og hvort hægt sé að alhæfa það yfir allar bankastofnanir og sparisjóði að 93% af innstæðum séu undir þessum 1.700 þús. sem frv. sem við fjöllum hér um setur sem tryggingavernd sem tryggir að fullu þessar innstæður en hlutfallslega það sem þar er umfram.

Síðan eru reglur um starfsábyrgðartryggingar sem hv. síðasti ræðumaður kom nokkuð inn á sem hann taldi að ætti að duga varðandi fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og mælti gegn þeirri tryggingavernd sem hér er gert ráð fyrir varðandi verðbréfin og stofnun á nýjum sjóði, eins og hann kallaði það, með 100 millj. kr. eign. Ég get út af fyrir sig tekið undir margt af því sem fram kom í máli Péturs H. Blöndals varðandi þann þátt málsins. Reyndar er það svo, og ég man ekki hvort hann kom inn á það, að umsagnaraðili einn eins og FBA segir: ,,Sé ástæða til að veita fagfjárfestum, stofnanafjárfestum eða opinberum aðilum aukna vernd, er eðlilegra að slíkt sé gert með hækkun fjárhæðar og breytingum á lágmarksskilmálum lögbundinna trygginga.`` Ég hygg að það sé það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal er að tala fyrir og er út af fyrir sig margt sem mælir með því þó að við sem skipum minni hlutann, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, Ögmundur Jónasson og sú sem hér stendur, tökum ekki sérstaklega undir eða gerum brtt. við.

Ég held að full ástæða sé til þess að við förum sömu leið og er hjá Finnum og reyndar Norðmönnum, að hafa fulla tryggingavernd fyrir innstæðueigendur og að því lýtur brtt. okkar. Ég held að það muni ekki breyta mjög miklu varðandi innlegg í sjóðinn sem á að vera 1% af meðaltali tryggðra innstæðna, þó gæti það verið að það breytti einhverju lítillega þannig að það þyrfti að leggja meira en þetta 1% inn, en verði þessi tillaga samþykkt við 2. umr. þá munum við að sjálfsögðu skoða það í 3. umr. hvort rétt sé að breyta því sem áskilið er í 6. gr. frv., þ.e. um heildareign innstæðudeildar sjóðsins, hvað það skuli vera að lágmarki.

Það er auðvitað freistandi, herra forseti, að fara nokkuð yfir stöðuna í bankakerfinu í tengslum við það að við erum að ræða Tryggingarsjóð og tryggingavernd fyrir þá sem geyma peninga sína og sparifé hjá innlánsstofnunum. Það er auðvitað margt núna í bankakerfinu sem veldur ákveðnum áhyggjum og sem kallar á það að við höfum hér öflugan tryggingarsjóð sem getur staðið undir því að mæta skakkaföllum í bankakerfinu. Að vísu er það svo ef hér verður eitthvað mikið bankahrun líkt og varð í Noregi fyrir um tíu árum þegar norski ríkissjóðurinn þurfti að koma til móts við það mikla bankahrun sem þar varð með 50 milljörðum kr., þá er þetta hvergi nærri nóg sem við erum hér að leggja til. Auðvitað vonar maður að svo fari ekki hér. En það er margt sem veldur áhyggjum í bankakerfinu, eins og mikil útlánatöp sem hafa verið á umliðnum árum, þó að á því hafi orðið nokkrar breytingar, útlánatöpin í bankakerfinu hafa verið alveg gífurlega mikil, námu t.d. á árunum 1993--1997 hjá Landsbanka og Búnaðarbanka, á þessu fjögurra ára tímabili, um 14 milljörðum kr., sem voru að vísu aðallega hjá lögaðilum. En það eru auðvitað gífurlega mikil útlánatöp. Eins hefur það valdið miklum áhyggjum líka að því er varðar bankana núna, þ.e. minnkandi eiginfjárhlutfall. Fengum við tölur um það inn í efh.- og viðskn. og er rétt að halda því til haga í umræðunni af því eiginfjárhlutfallið skiptir verulegu máli varðandi styrk bankakerfisins og einstakra lánastofnana, það hefur minnkað verulega og helst í hendur þá við útlánaaukninguna. Eiginfjárhlutfall einstakra bankastofnana og þáttur víkjandi lána er orðið miklu stærra á umliðnum árum, eða frá 1995 á tímum þeirrar þenslu sem við höfum gengið í gegnum. Er hægt að nefna það hér að eigið hlutfall viðskiptabanka og sparisjóða var í árslok 1995 um 11% en var núna um mitt þetta ár um 9,5%. Þetta er auðvitað mismunandi hjá einstaka bankastofnunum. Ef tekinn er með inn í eiginfjárhlutfallið þáttur víkjandi lána, þá var eiginfjárhlutfallið t.d. hjá Landsbanka án víkjandi lána 7,4% árið 1995 en er komið niður í 6%. Mig minnir að eiginfjárhlutfallið sé áskilið í lögum um 8%. Ef teknir eru sex stærstu sparisjóðirnir þá hefur eiginfjárhlutfallið lækkað úr 14,2% eins og það var 1995 niður í 7,9%. Við slíkar aðstæður er auðvitað mjög brýnt og raunar alltaf að hafa hér sterka og örugga tryggingarsjóði og að löggjafarþingið búi þannig um hnútana að eins og kostur sé verði haldið þannig á málum varðandi þessa tryggingarsjóði að þeir geti staðið undir því ef bankakerfið verður fyrir miklum skakkaföllum.

[17:15]

Varðandi verðbréfadeild Tryggingarsjóðsins sem síðasti ræðumaður gagnrýndi nokkuð má segja að það séu bæði kostir og gallar að hafa þetta inni með þeim hætti sem hér er gert. Ég hef áður minnst á umsögn FBA sem telur eðlilegra að fagfjárfestar og stofnanafjárfestar með opinberum aðilum fái sína vernd gegnum starfsábyrgðartryggingu, en starfsábyrgðartrygging verðbréfamiðlana bætir allt að 4,5 millj. kr. vegna hvers einstaks tjónsatviks en heildarfjárhæð bóta getur þó ekki orðið hærri en 13,5 millj. kr. á tímabilinu. Sambærilegar tölur fyrir verðbréfafyrirtæki eru 9 millj. kr. og 27 millj. kr., hvort tveggja miðað við verðlag ársins 1993. Þessar tölur hafa því greinilega eitthvað breyst, en eru kannski ekki mjög fjarri þessu. Seðlabankinn bendir á kostina að hafa verðbréfadeildina inni í þessum tryggingarsjóði og segir að bankastarfsemi og verðbréfasala sé orðin mjög samofin og hagstætt sé út frá tryggingafræðilegu sjónarmiði að stækka slíka sjóði og dreifa áhættu, auk þess sem rekstrarkostnaður yrði minni. Það er alveg örugglega rétt að þeir sem eiga einhvern smávægilegan sparnað, hann þarf ekki að vera stór, hafa ábyggilega á umliðnum árum flutt sparnað sinn mikið úr hefðbundnum bankabókum og innstæðum yfir í hlutabréf eða verðbréf.

Við spurðumst fyrir um það í nefndinni hversu oft hefði reynt á innstæðutryggingar og vorum þar með sem viðmið Evrópska efnahagssvæðið. Þá kom fram að tvö verðbréfafyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu hafa orðið gjaldþrota á þessu ári, sem bitnaði nokkuð á einstaklingum sem þar áttu sparnað sinn. Staða tryggingarsjóðsins eins og hann er í dag er að viðskiptabankarnir, og það kom mér nokkuð á óvart, hafa ekki þurft að greiða til tryggingarsjóðsins í fimm ár, en frá 1985--1993 greiddu bankarnir 2 milljarða kr., eða 1% af innstæðum. Skýringin er sú að ávöxtun á eignum sjóðsins er hærri en hækkun innstæðna á tímabilinu.

Ég sé, herra forseti, út af fyrir sig ekki ástæðu til að fara ítarlegar yfir þetta mál. Afstaða okkar í minni hlutanum er skýr í þessu efni. Við flytjum hér tvær brtt. eins og ég hef lýst. Sú fyrri lýtur að stjórn þessa tryggingarsjóðs en við viljum líkt og síðasti ræðumaður, hv. þm. Pétur H. Blöndal, að inn í þennan sjóð komi fulltrúi innstæðueigenda eða fjárfesta. Það er alveg rétt eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns að sjóðurinn á að gæta hagsmuna innstæðueigenda og því er auðvitað eðlilegt að þeir eigi einn fulltrúa, en þarna inni séu ekki bara hagsmunaaðilar eins og fulltrúar bankastofnana. Einhver verður að fylgjast með því, þó að ég sé ekki þar með að segja að fulltrúar bankastofnana geri það ekki, að hér sé um nægjanlega tryggingavernd að ræða. Það er hlutverk Fjármálaeftirlitsins, en það á að vera líka hlutverk sjóðstjórnarinnar og þar tel ég að besti vörslumaður innstæðueigenda væri fulltrúi sem kæmi beint úr þeirra hópi. Í nefndinni var rætt um að það gæti annaðhvort verið um að ræða fulltrúa frá Samtökum fjárfesta eða jafnvel frá Neytendasamtökunum. Mér skilst að nú sé þannig um hnútana búið að fulltrúi Neytendasamtakanna sé í ákveðinni nefnd á vegum viðskrn. eða viðskrh. sem sér um málefni neytenda í viðskiptum við fjármálafyrirtæki og í þeirri nefnd sem fjallar um málefni neytenda í viðskiptum við fjármálastofnanir eru Neytendasamtökin, fjármálafyrirtæki og viðskrn., ég held að þetta sé þriggja manna nefnd. Ég verð að segja það, herra forseti, mér finnst óttalega smásmugulegt að hleypa ekki fulltrúa innstæðueigenda eða fjárfesta inn í þá sjóðstjórn. Ég hef skilið það svo að það væri eitthvað viðkvæmt mál gagnvart þeim sem fyrir eru í þessari stjórn. En ég tel ákaflega mikilvægt að málum sé skipað með þeim hætti og sjóðstjórnin sé þannig skipuð og því er tillaga okkar svohljóðandi:

,,Við 4. gr. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er verði 3. málsl., svohljóðandi: Skal annar þeirra manna sem viðskiptaráðherra tilnefnir vera fulltrúi innstæðueigenda og fjárfesta.``

Síðan kem ég að 2. tölul., sem er veigamesta brtt. okkar í minni hlutanum sem skipa ásamt mér hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og hv. þm. Ögmundur Jónasson, en hún lýtur að aukinni tryggingavernd frá því sem frv. gerir ráð fyrir. Þar leggjum við til að einstaklingar skuli fá kröfur sínar vegna tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum greiddar að fullu. Hér er sem sagt lagt til að full tryggingavernd sé hjá þeim sem eiga innstæður sínar í innlánsstofnunum og bönkum, þannig að þeir geti verið rólegir hvað sem á dynur, hvaða skakkaföll sem verða í bankakerfinu, þá munu þeir að fullu og öllu fá sínar innstæður greiddar.

Í 2. tölul. brtt. okkar segjum við því:

,,Við 10. gr. 1. mgr. orðist svo:

Einstaklingar skulu fá kröfur sínar vegna tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum greiddar að fullu. Krafa hvers lögaðila og krafa einstaklinga vegna tryggðra verðbréfa og reiðufjár allt að 1,7 millj. kr. skal bætt að fullu en allt sem umfram þá fjárhæð er skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir hvorrar deildar sjóðsins hrökkva til. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 5. janúar 1999. Lögaðilar geta ekki krafið sjóðinn um frekari greiðslu síðar þótt tjón þeirra hafi ekki verið bætt að fullu. `` --- Og þá erum við að tala um verðbréfasjóðina. --- ,,Sama á við um einstaklinga varðandi kröfur vegna tryggðra verðbréfa og reiðufjár.``

Þetta er sem sagt tillaga okkar, herra forseti, en hún lýtur að því að tryggja að fullu innstæður í innlánsstofnunum hjá einstaklingum, líkt og gert er í Finnlandi, og reyndar í Noregi einnig. Ég held ég láti máli mínu lokið, herra forseti, og vænti þess að tillagan fái hljómgrunn hér í þingsölum.