Fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 13:36:47 (3237)

1999-12-17 13:36:47# 125. lþ. 48.96 fundur 230#B fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[13:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Varðandi spurningu hv. þm. Tómasar Inga Olrichs, formanns utanrmn., þá vildi ég ekkert frekar en að þessari umræðu lyki en það er að sjálfsögðu ekki í mínu valdi að stjórna því hvenær umræðum lýkur og hvenær ekki. Aðalatriði málsins er það að við höfum í gegnum tíðina fengið fullnægjandi skýringar og upplýsingar frá Bandaríkjunum í þessu máli. Þetta mál hefur ávallt verið rætt á hv. Alþingi þegar birst hefur viðtal við þann aðila sem hér var tilgreindur, William Arkin. Í því nýjasta viðtali sem birtist við hann kemur í sjálfu sér ekki fram neitt annað nýtt en það að hann dregur til baka öll fyrri ummæli sín og bætir síðan við að George Schultz, þáv. utanrrh. Bandaríkjanna, hafi sagt íslenskum stjórnvöldum ósatt 1985.

Engin gögn í utanrrn. hafa fundist enn sem benda til þess að George Schultz, þáv. utanrrh. Bandaríkjanna, hafi sagt Íslendingum ósatt. Annað kemur ekki fram nýtt í þessu viðtali og ég vænti þess að næsta viðtal við þennan William Arkin verði ekki ástæða til enn einnar utandagskrárumræðu á Alþingi, ég tel að þær séu orðnar nægilega margar.