Fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 13:53:07 (3245)

1999-12-17 13:53:07# 125. lþ. 48.96 fundur 230#B fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[13:53]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ef sjálfstæðismenn og flestir framsóknarmenn á Alþingi hefðu verið jafngagnrýnir á Bandaríkjamenn og NATO og þeir eru á alla þá sem leyfa sér að halda uppi lýðræðislegu og opnu aðhaldi, þá væri þetta ekki í fyrsta skipti sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich og félagar kveddu sér hljóðs í utandagskrárumræðu um kjarnorkuvígbúnað Bandaríkjamanna. Staðreyndin er sú að miklu er búið að ljúga um tilvist kjarnorkuvopna Bandaríkjamanna á íhlutunarsvæði þeirra og NATO í tímans rás.

Það er mjög erfitt að halda uppi þessari umræðu vegna þess að stefna NATO og Bandaríkjanna er að játa hvorki né neita um tilvist slíkra vopna. Nú hefur það hins vegar fengist staðfest að þeir hafa logið um tilvist kjarnorkuvopna í Japan, á Grænlandi og víðar. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Við ættum að vera búin að læra það að þegar kemur að upplýsingagjöf um hernað og hernaðarleyndarmál er betra að treysta þeim varlega. Við höfum nýleg dæmi fyrir okkur í þessum efnum. Í Flóabardaga 1991 vildi enginn í liði svokallaðra bandamanna kannast við það að verið væri að nota úraníumhúðaðar fallbyssukúlur. Í dag er þetta viðurkennt og bandarískir hermenn sem börðust gegn Írökum kvarta undan hárlosi, húðsjúkdómum og fleiri kvillum; sömu menn og hafa fengið staðfestar stórkostlegar skemmdir á erfðaefni sínu. Í Írak birtast afleiðingarnar í tíðum fyrirburafæðingum og stórauknu nýgengi hvítblæðis.

Í átökunum í Júgóslavíu var þessum sömu vopnum beitt og menn þrættu fyrir það. NATO-herinn varpaði klasasprengjum yfir Júgóslavíu en þrætti fyrir það. Flugmenn vörpuðu ónotuðum sprengjum í Adríahafið á leið sinni aftur til bækistöðva á Ítalíu en herforingjarnir reyndu að þræta fyrir það. Og Vesturveldin stærðu sig af því að hafa eytt stórum hluta af vígbúnaði Milocevic með sprengjuárásum sínum, en hvað kom í ljós? Þegar Serbar hörfuðu út úr Kosovo fannst hvergi tangur eða tetur af öllum vígtólunum sem menn þóttust hafa hæft. Þá var (Forseti hringir.) sagt að Serbarnir hefðu bara verið svo fljótir að rífa sundur hræin. En síðan kom í ljós eyðileggingin á skólunum, sjúkrahúsunum, íbúðahverfum, elliheimilum, sendiráðum, barnaheimilum o.s.frv. (Forseti hringir.)

Ef það vekti fyrir mönnum að hafa lýðræðislega umræðu um þetta þá væri vel. En það vakir því miður ekki fyrir hv. málshefjanda.

(Forseti (GuðjG): Tíminn er löngu liðinn, hv. þm.)