Framhaldsskólar

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 21:24:14 (3324)

1999-12-17 21:24:14# 125. lþ. 48.18 fundur 101. mál: #A framhaldsskólar# (aðlögunartími, fornám, samræmd lokapróf o.fl.) frv. 100/1999, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[21:24]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í tilefni af þessum umræðum vil ég aðeins láta þess getið út af starfsgreinaráðunum og út af aðgangi að háskólum, að starfsgreinaráðin eiga eins og vitað er að gera tillögur til menntmrn. um námskrárnar á sínu sviði. Síðan er markmið menntmrn. að búa þannig um hnúta að af öllum starfsnámsbrautum geti menn farið upp í háskóla. Sú breyting sem verið er að gera á framhaldsskólalögunum og nefndin hefur flutt brtt. um, um aðgang að háskólum, opnar öllum, sem hafa hafið nám í framhaldsskóla og taka próf sem veitir þeim réttindi til inngöngu í háskóla, rétt til að taka stúdentspróf. Hér er að mínu mati verið að styrkja mjög leiðir í starfsnámi upp á háskólastigið og auðvelda nemendum mjög að komast af starfsnámsbrautum inn í háskóla. Ég fagna því að nefndin flytur tillöguna og tel að hún sé mjög mikilvæg til að starfsnámið hljóti þann sess í framhaldsskólunum sem menn telja að það þurfi að hljóta í samanburði við bóknámsbrautirnar. Ég held að það skref sem við erum að stíga með þessu frv. núna og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á því, séu til þess fallnar að styrkja enn þá stefnumörkun sem felst í framhaldsskólalögunum almennt að efla stöðu verknáms og starfsnáms í landinu og þess vegna sé mikilvægt að líta til þess.

Varðandi umræðuna um stöðu starfsgreinaráðanna og hlut einstakra aðila í að greiða kostnað af þeim, er það svo að þetta mál hefur verið til umræðu á vettvangi menntmrn., en lögin mæla skýrt fyrir um að það eru aðilarnir sem standa að því að tilnefna menn í starfsgreinaráðin sem bera kostnað af fulltrúum sínum. Ég tel að sú skipan sé eðlileg og hef talið það skynsamlegt miðað við hlutverk þessara aðila í starfsnáminu og við skipulag þess að þessi skipan sé sem höfð er og eins og áfram er mælt fyrir í lögum þrátt fyrir þær breytingar sem er nú verið að gera.