Málefni aldraðra

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 21:37:20 (3328)

1999-12-17 21:37:20# 125. lþ. 48.19 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, GHall
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[21:37]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég sagði þegar þetta frv. var lagt fram að megininntak þess væri af hinu góða. Ég nefndi þó nokkur atriði sem ég taldi nauðsynlegt fyrir hv. heilbr.- og trmn. að athuga og skoða. Ég sé, herra forseti, að nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frv. og flest er til bóta, en hlýt að spyrja að því hvers vegna tekið er út úr 1. gr. ákvæði þar sem sagði í eldri lögum:

,,Markmið þessara laga er að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast og hagkvæmast miðað við þörf og ástand hins aldraða.``

Það var áður í eldri lögunum ,,þjónustustigi sem er eðlilegast og hagkvæmast``. Ég tel að það sé eðlilegt að það sé haft að leiðarljósi líka þegar um þennan málaflokk er fjallað.

Við 2. gr. er gerð tillaga um vistmannaráð. Ég tel nauðsynlegt að það komi fram frá heilbrrn. eða nefndinni hvernig vistmannaráðið á að vera skipað. Þau eru til á nokkrum heimilum en ekki alls staðar og engar sérstakar reglur um það hvernig með það mál skuli fara. Ég hef heyrt að hér sé verið að horfa t.d. til laga í Danmörku. Þar er fundur stjórnar tvisvar á ári en hins vegar framkvæmdastjórnar miklu oftar. Hér er því mikill munur á.

Í 9. gr., herra forseti, er talað um að nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er fyrir þjónustu fyrir aldraða, skuli vera styrkhæfar úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Hins vegar er fellt úr eldri lögunum: ,,Í frumvarpinu er fellt brott sérstakt ákvæði um að sjóðurinn skuli leggja til fé í viðhald húsnæðis þar sem það felst í rekstri stofnana enda er gert ráð fyrir að við ákvörðun daggjalda verði ákveðnu hlutfalli af daggjaldataxta varið til viðhalds og tækja.`` --- Talað er um að þetta sé 4,8%. Ég hef ekki séð töflu frá heilbrrn. hvernig daggjaldataxti er búinn til. Þegar er litið yfir flóru daggjalda til stofnana aldraðra er daggjaldataxtinn jafnmisjafn og stofnanirnar eru margar.

Í 14. gr. er svo atriði sem ég er mjög hissa á að nefndin skyldi ekki hafa breytt. Ég hélt að það hefði komið glögglega fram hjá nefndinni, bæði á síðasta kjörtímabili og væntanlega núna í umræðunni. Annars vegar er talað um dvalarheimili og þar er upptalið hvaða þjónustu skuli veita en mjög fátt er um hvernig þjónusta skuli vera á hjúkrunarheimilum. Og, með leyfi forseta, vil ég nefna að hér stendur í texta um dvalarheimili: ,,Á stofnunum þessum skal vera varsla allan sólarhringinn, öryggiskerfi í hverri íbúð og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum og félags- og tómstundastarfi.`` Um hjúkrunarheimili er sagt: ,,Hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými á öldrunarstofnunum ætluð öldruðum einstaklingum sem eru of lasburða til að dveljast á dvalarheimilum, sambýlum eða í sérhönnuðum íbúðum. Þar skal veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta og vera endurhæfing.`` Ekkert annað er talið upp. Við vitum um þann vanda sem sumir einstaklingar hafa jafnvel kvartað um að þessi þjónusta sé ekki eins og skyldi.

Ég kem þá að því sem ég hef sagt áður, þegar í upphaflegu frv. var gert ráð fyrir að heilbrrh. skipaði mann í stjórn, þá væri miklu eðlilegra, og ég vona að heilbrrn. taki það upp, að starfsfólk heilbrrn. fari út á þessar stofnanir og taki þær út til þess að skoða hvaða þjónusta er veitt þar fyrir það fjármagn sem til hennar er greitt. Ég vildi að virðulegur formaður heilbr.- og trn. tæki þetta til athugunar því þetta er mál sem mikið hefur verið rætt um af hálfu aðstandenda aldraðra á hjúkrunarheimilum.

Ég verð að segja að það stingur mann svolítið að lesa 15. gr. þar sem talað er um vistunarmat. Greinin hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Hafi aldraður einstaklingur verið lengur en sex vikur á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar skal þjónustuhópur aldraðra meta þörf einstaklingsins fyrir vistun á öldrunarstofnun eða fyrir önnur úrræði.`` Er það virkilegt að þetta þurfi að standa í lagatexta? Er heilbrigðisstéttin ekki virkari en svo að það þurfi að vera lagastoð til þess að þetta sé gert?

Síðan vildi ég fá skýringu hér, virðulegi forseti, við 18. gr. Ég skil hana þannig, eins og stendur hér:

,,Eigendur stofnana fyrir aldraða, sbr. 14. gr., skipa stjórn stofnunarinnar.

Sé stofnunin í beinum starfstengslum við sjúkrahús gilda um stjórn stofnunar ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu.``

Nú eru til nokkrar stofnanir eða heimili, dvalarheimili þar sem er viðtengt hjúkrunarheimili. Ég lít þá svo á að hér sé ekki verið að tala um þær öldrunarstofnanir. Það er ekki verið að tala um þær öldrunarstofnanir þar sem dvalarheimili er tengt hjúkrunarheimili. Ég lít svo að hér sé verið að tala um að dvalarheimili sem er í nánum tengslum eða samstarfi við spítala. Ef ég er að fara með rangt mál vildi ég mjög gjarnan fá það leiðrétt vegna þess að þetta er það atriði sem ég sé í greinargerðum frá t.d. læknum og ef ég man rétt hjá hjúkrunarfræðingum þar sem þeir vitna mjög til og telja að sé nauðsynlegt að fara eftir þessum lagatexta varðandi skipan stjórnar hjúkrunarheimilanna.

[21:45]

Hér er talað um að því þurfi að fylgja vel eftir að þessir textar séu samræmdir hvað áhrærir hjúkrunarheimili og dvalarheimili. Ég vildi líka segja í lok máls mín --- ég ætla ekki að hafa þetta langt --- að ég tel að þegar verið er að fjalla um þann texta að Framkvæmdasjóður aldraðra eigi ekki að greiða neitt hvað varðar viðhald, þá vitum við um fjárhagsástand margra heimila úti á landi. Það eru ekki mörg ár síðan að stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra fór vítt og breitt um landið og tók út öldrunarstofnanir, þ.e. tók út ástanda bygginga. Þá kom fram að mikil þörf var á að veita fleiri tugum millj. til þessara heimila vegna gamals húsnæðis sem var orðið mjög úr sér gengið og þurfti mikils viðhalds við. Það er gert ráð fyrir því að bæði starfsmannaráð og vistmannaráð skuli skipa í stjórn heimilanna, en jafnframt segir í greinargerð frá fjmrn. að það geri ekki ráð fyrir því að þetta frv. sé neitt útgjaldaaukandi. En ég hlýt að spyrja: Ef það er skilyrt að þessir aðilar séu skipaðir í stjórn, hvernig á þá að fara með? Eiga þessir aðilar að sitja launalausir í stjórn heimilanna eða eru einhverjar hugmyndir um það hvernig skuli fara með?

Ég vildi að lokum koma inn á það sem snýr að þjónustuíbúðum fyrir aldraða. Þar sem fjallað er um 13. gr. frv. í greinargerð segir, með leyfi forseta:

,,Þjónustuíbúðir fyrir aldraða þurfa að uppfylla ákveðnar kröfur um öryggiskerfi og þjónustu.

Brögð hafa verið að því að húsnæði hafi verið selt sem þjónustuhúsnæði fyrir aldraða án þess að þessum skilyrðum hafi verið fullnægt.``

Í umsögn frá Læknafélaginu kemur fram að ef meiningin sé að setja á bjöllukerfi, þ.e. bjöllur sem séu fastar inni í stofu, á salernum eða í íbúðinni, þá muni þetta veita falskt öryggi. Annað er líka alveg ljóst, þ.e. að ef krafa er gerð um að bjöllukerfi í þjónustuíbúðum fyrir aldraða, svo þær beri nafn með rentu eins og hérna er komið að í frumvarpstextanum, þá skulu menn gera sér grein fyrir því að það þýðir þá einhverja vöktun, einhverja svörun. Þeir hjá Læknafélaginu leggja til og telja eðlilegra að um bjölluhnappa verði að ræða sem fólk hafi um hálsinn eða beri sem armband. En þá er spurningin: Hvert á að leita þjónustunnar? Á það að vera í 112 eða á hjúkrunarfræðingur að vera til staðar allan sólarhringinn í viðkomandi húsi? Ég veit af fenginni reynslu af þessum neyðarhnöppum að það hefur farið þannig að hinir öldruðu hafa mótmælt þessum hnöppum mjög og talið þá allt of kostnaðarsama. Ég geri mér fulla grein fyrir því að erfitt er að fara bil beggja í þessu. En það er samt mjög umhugsunarvert sem segir í umsögn Læknafélagsins, að ekki sé nóg að setja bjöllur í íbúðina heldur þurfi líka að hugsa um öryggið. Það sem þeir lesa úr þessu er að þeir telja að hér sé öryggið mjög falskt.

Herra forseti. Að lokum vildi ég endurtaka það sem ég spurði um áðan er ég beindi orðum mínum til hv. formanns heilbr.- og trn., þ.e. um skilgreiningu 18. gr. Hvað þýðir hún?