Bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 23:50:16 (3356)

1999-12-17 23:50:16# 125. lþ. 48.30 fundur 241. mál: #A bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna# frv. 27/2000, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[23:50]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Mér er sérstök ánægja að mæla fyrir þessu litla frv. Ég hef satt að segja hlakkað til þess í langan tíma og ætlaði reyndar að koma því verk á síðasta kjörtímabili. Það tókst nú ekki af vissum ástæðum en hér er það komið á dagskrá.

Þetta frv. er lagt fram samhliða till. til þál. um fullgildingu Íslands á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar ILO nr. 156 og jafna möguleika og jafnrétti handa körlum og konum í atvinnu. Hæstv. utanrrh. kemur til með að leggja fram þáltill. en hún er að vísu ekki komin fram. Samþykkt ILO nr. 156 er ætlað að stuðla að jafnrétti karla og kvenna sem hafa skyldum að gegna gagnvart fjölskyldu sinni til starfa og hins vegar að jafna aðstöðu þeirra starfsmanna sem bera fjölskylduábyrgð og þeirra sem ekki hafa slíka ábyrgð. Í stórum dráttum má segja að verið sé að hvetja aðildarríki til þess að grípa til allra viðeigandi aðgerða til að koma þessum markmiðum í framkvæmd með tilliti til mismunandi aðstæðna í hinum ýmsu ríkjum.

Aðalskuldbinding samþykktar ILO nr. 156 felst í 8. gr. hennar þar sem segir að fjölskylduábyrgð skuli ekki vera gild ástæða til uppsagnar starfs. Um er að ræða nýja reglu í íslenskum vinnurétti en samkvæmt þeim reglum sem nú gilda er meginreglan sú að atvinnurekendur þurfa ekki að gefa upp ástæður uppsagnar. Undantekningar eru þó til frá þessari reglu sem varða uppsagnir trúnaðarmanna sbr. 11. gr. laganna nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og uppsagnir barnshafandi kvenna. Ákvæði 1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Óheimilt er að segja manni upp störfum eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar sem hann ber.

Með fjölskylduábyrgð er átt við skyldur starfsmanns gagnvart ósjálfráða börnum, maka eða nánum skyldmennum sem búa á heimili hans og greinilega þarfnast umönnunar hans eða forsjár, svo sem vegna veikinda eða fötlunar.``

Þessi grein er samin í þríhliða samstarfsnefnd félmrn. og helstu samtaka aðila vinnumarkaðarins sem fjallar um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina. Nefndina skipa fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands og félmrn., sem jafnframt fer með formennsku í nefndinni. Nefndin var sammála um að önnur ákvæði samþykktarinnar kölluðu ekki á lagabreytingar hér á landi.

Ég mun, herra forseti, láta þetta nægja sem framsögu fyrir þessu máli. Þetta er eitt af þeim atriðum sem getið er um að stefnt skuli að í ályktun Alþingis um opinbera fjölskyldustefnu sem samþykkt var fyrir nokkrum árum. Þetta er fjölskylduvænt þingmál sem ég legg til að fari til umfjöllunar í hv. félmn.