1999-12-18 00:08:04# 125. lþ. 48.30 fundur 241. mál: #A bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna# frv. 27/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[24:08]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að þar sem gott samkomulag náðist í þríhliðanefndinni um orðalag tillögugreinarinnar í frv. væri líklega ekki mjög viturlegt að rugla því orðalagi, það verður þá bara að vinnast í tímans rás að breyta því ef þurfa þykir. Mikilvægt er að hafa náð þessu máli fram og þar sem ég þekki mjög vel hversu mikilli andstöðu þetta mál mætti í ríkisstjórn veturinn 1994--1995, þá er ég líka mjög meðvituð um að þurft hefur að hamra á þessu máli hvern einasta vetur síðan og það er afskaplega mikilvægt að hafa náð því fram. Við verðum að sameinast um að frv. verði að lögum fyrir vorið og að ekki verði hróflað þannig við því að það tefjist í þingnefnd.

Mig langar líka, virðulegi forseti, að nefna það af því við erum að afgreiða þetta mál þegar rétt er liðið yfir miðnætti á þessu kvöldi og við langt komin með dagskrá þessa fundar þar sem á dagskrá eru flest þau mál sem á að afgreiða á haustþinginu, þá finnst mér það ekki leiðinlegt fyrir hæstv. félmrh. að síðasta málið sem hann mælir fyrir núna fyrir jólin skuli fá svo jákvæðar viðtökur. Það er nú einu sinni þannig að þrátt fyrir átök á haustþingi og á jólaönninni viljum við öll fara í góðri sátt til jólanna. Mér finnst mjög gaman fyrir hæstv. ráðherra að það mál sem hann er að mæla fyrir skuli fá sérstaklega góðar viðtökur af þingflokksformönnum beggja stærri stjórnarandstöðuflokkanna.