Mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 11:05:11 (3406)

1999-12-18 11:05:11# 125. lþ. 49.94 fundur 239#B mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[11:05]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Best væri sjálfsagt að fylgja því eftir með að senda hv. þm. Jón Bjarnason aftur að Hólum til að vinna við þá merku vísindastöð sem þar starfar því að það þarf að hafa sterka menn í öllum þeim góðu einingum.

Það er ljóst að hjarta mitt slær með því að styrkja þær stofnanir sem landbúnaðurinn á. Hér er ekki verið að þakka fyrir það sem gert hefur verið. Ég beitti mér sem formaður Lánasjóðs landbúnaðarins fyrir því að hann flytur á Selfoss í vor, í hið grónasta landbúnaðarhérað. Hestamiðstöð í Skagafirði er vísindastöð. Ég verð að segja að í þessu tvennu er alveg skýrt hver vilji landbrh. er í þessum málum. En við verðum samt að vinna að þessu faglega. Hér eru verkefni sem sannarlega eiga heima úti á landi. Verkefni eru innan Bændasamtakanna sem sannarlega eiga heima úti á landi. Við þurfum að byggja upp sterkar vísindastöðvar, ráðunautamiðstöðvar og því er það rétt sem ráðuneytisstjórinn segir að það þarf að vera sterk stöð eins og á Hólum --- þannig eru Reykir, Egilsstaðir og Gunnarsholt --- sem tekur við vísindamönnunum og störfunum. En ef ég sem landbrh. færi að sópa öllum þeim vísindamönnum sem starfa af heilum hug og drengskap fyrir íslenskan landbúnað í einn poka og bera þá út á land, þá er ég hræddur um að þeir sprækustu mundu klippa gat á pokann og fara heim aftur. Það væri skaði fyrir landbúnaðinn.

Þess vegna þakka ég þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég vil hafa þingmenn með mér í þeirri vinnu sem fram undan er við að styrkja þessar stöðvar, styrkja landbúnaðinn með því að mennirnir sem þjóna honum standi úti á akrinum með bændunum, í náttúru landsins. Við megum heldur ekki gleyma því í þeirri umræðu að við eigum líka höfuðborg og þar býr fólk sem vill okkur vel. (GHall: Það er rétt.) Þess vegna vil ég ná samstöðu um friðsamlega vinnu í þessum málum. Ég treysti því.

Ég læt þá orðum mínum lokið en segi við hæstv. félmrh.: Margt má af honum læra. (GHall: Lærir svo lengi sem lifir.)